Félagatal, lottótekjurnar og hreina samviskan

Gísli Jón Kristjánsson.

Nú geysast fram á ritvöllinn Þórir Guðmundsson og Ásgerður Þorleifsdóttir og eru að reyna að halda því fram að önnur félög, en þau sem þau stýra, séu með sín félagatöl röng og fái þess vegna hærri greiðslur úr sameiginlegum sjóðum.

Byrjum á byrjuninni. Umræddar greiðslur eru afar lágar og rangar félagsskráningar hafa lítið sem ekkert að segja um rekstur félaganna og úthlutun lottótekna. Raunar eru umræddar reglur afar lélegar að mörgu leyti.

Til dæmis ættu skráningar og iðkendur að taka mið af ástundun innan ársins. Íþróttagreinar sem eru stundaðar eingöngu örfáa mánuði ættu eðli málsins samkvæmt að fá lægri greiðslur.

Geta Þórir Guðmundsson og Ásgerður Þorleifsdóttir fullyrt að þeirra skráningar séu 100% réttar? Því við lauslega athugun nú í morgun fundust strax nokkrir iðkendur, bæði í körfuknattleik og skíðum, sem ekkert tengjast umræddum greinum.

Knattspyrnufélagið Hörður tók upp nýtt kerfi, Abler, á árinu 2024 og allir sem eru skráðir í það kerfi eru iðkendur hjá félaginu og skráningar því réttar. Að biðja um gamlar upplýsingar frá ÍSÍ og fara með það í fjölmiðla er einfaldlega viljandi rangfærslur hjá aðilum.

Það er frítt að æfa handbolta hjá Herði. Sjálfboðaliðar fjármagna reksturinn alveg. Keppnisferðir kosta ekkert og öll eru velkomin á æfingar.

Öll félögin innan Ísafjarðarbæjar hafa skráð börn sem stunda íþróttir hjá þeim í félagatal. Börn sem hafa verið í boltaskóla hafa til dæmis verið félagsmenn jafnt hjá Herði sem og öðrum íþróttafélögum. Hvorki körfubolti né skíði eru þar undanþegin.

Er ekki tilefni til að aðilar slíðri sverðin, vinni að samstarfi og uppbyggingu eigin félaga frekar en niðurrifi annarra? Það eru allir velkomnir að koma á æfingar, taka þátt í starfinu og verða skráðir iðkendur – þó það hafi nánast engin áhrif á greiðslur lottótekna. Um er að ræða upphæðir á hvern iðkanda langt undir þúsund krónum.

Staðreyndin er sú að síðastliðið haust fór fram tímaúthlutun í íþróttahúsinu á Torfnesi. Héraðssamband Vestfjarða benti á að eitt félag var verulega hlunnfarið þar. Vestri körfubolti hafði fengið of marga tíma og núna hafa aðilar samþykkt að laga það og koma í betri farveg. Nú síðast í gær lofaði formaður körfuknattleiksins friði og góðum samskiptum en í dag halda þessar árásir áfram.

Sigurður Hreinsson formaður HSV á hrós skilið fyrir að leiðrétta það óréttlæti sem félagið varð fyrir af hálfu Ísafjarðarbæjar. Hann er sjálfboðaliði sem hefur unnið þrekvirki við að leiðrétta mistök starfsmanns Ísafjarðarbæjar. Finnst forráðamönnum félaganna það í lagi að verðlauna sjálfboðaliða fyrir gott starf með stöðugum árásum?

Er ekki mál að árásunum linni og við einbeitum okkur að því að byggja upp frekar en að berja hvort annað niður?

Gísli Jón Kristjánsson

DEILA