Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar bárust síðdegis í gær upplýsingar frá formanni björgunarsveitar Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Þingeyri að sést hefði til hnúfubaks á Dýrafirði sem virtist vera með veiðafæri flækt utan um sporðinn. Svo virtist sem þetta kæmi í veg fyrir að hann gæti kafað eða synt um.  Varðskipið Þór sem statt var undan Vestfjörðum var sent áleiðis inn á Dýrafjörð til þess að finna hvalinn og freista þess að skera veiðarfærin frá sporði dýrsins.

Rétt fyrir klukkan níu í gærkvöldi komu varðskipsmenn auga á hvalinn utarlega í Dýrafirði og var bátur skipsins sjósettur með nokkrum skipverjum um borð ásamt viðeigandi verkfærum til að skera veiðarfærin.  Aðgerðin heppnaðist vel því að um 20 mínútum síðar var hvalurinn laus við netadræsuna, netakúlurnar og annað það sem flækst hafði utan um sporðinn.

Að sögn stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar láðist Hnúfubaknum að þakka fyrir sig en lét sig hverfa ofaní undirdjúpin um leið, sjálfsagt frelsinu feginn.

bryndis@bb.is

DEILA