Gleðileg jól 2024

Ísafjarðarkirkja. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Fréttavefurinn Bæjarins besta sendir lesendum sínum, auglýsendum og öllum velunnurum besta jóla- og nýárskveðjur með góðum óskum um gott og farsælt komandi ár.

Árið hefur að mörgu leyti verið Vestfirðingum í meginatriðum farsælt til lands og sjávar rétt eins og árið á undan. Mikilvæg framfaramál hafa mjakast áfram í rétta átt og íbúum fjölgaði, einkum þar sem áhrifa uppbyggingar í atvinnulífinu gætir mest. 

Það hillir undir að ljúki vegagerð á Dynjandisheiði og í Gufudalssveit. Síðasti áfangi á Dynjandisheiði hefur verið boðinn út og ljúka á verkinu á árinu 2026. Brúarsmíðin í Gufudalssveit verður boðin út fljótlega á nýju ári.

Ný ríkisstjórn hefur tekið við og boðar átak í jarðgangagerð og samgönguframkvæmdum almennt. Raunhæft er fyrir Vestfirðinga að gera sér vonir um að á næsta ári verði teknar ákvarðanir um frekari stórar samgönguframkvæmdir í fjórðungnum.

Hvalárvirkjun þokast í átt til þess að komast á framkvæmdastig. Ágreiningsmálum fækkar fyrir tilstilli dómskerfisins sem hefur hafnað nýstárlegum landakröfum hluta af landeigendum einnar jarðar á hendur eigendum annarra jarða sem þegar hafa veitt samþykki sitt fyrir Hvalárvirkjun. Hæstiréttur mun væntanlega ljúka á komandi ári þessum málaferlum og að öllum líkindum staðfesta dóma héraðsdóms og Landsréttar.

Laxeldið hefur haldið áfram að eflast á árinu og er orðið svo umfangsmikið í efnahagslegu tilliti að án þess myndu forsendur meira og minna hverfa fyrir lífskjarabótum í almennu kjarasamningnum. Fyrirsjáanlegt er að laxeldið muni verulega aukast á næsta ári enda hafa verið gefnar út framleiðsluheimildir á Vestfjörðum sem eru tvöfalt meiri en núverandi framleiðsla.

Þá hefur árið leitt í ljós að laxeldi í Ísafjarðardjúpi gengur sérstaklega vel. Vöxtur laxins er mikill, lús óveruleg, afföll sáralítil og straumar sterkir undir kvíunum. Almennt hefur laxeldið á Vestfjörðum gengið vel og áfallalaust.

Laxeldið hlýtur að vera stjórnvöldum, sem vilja meiri tekjur í ríkiskassann, sérstaklega þóknanlegt. Það greiðir alla skatta að fullu sem lagðir eru á atvinnuvegina og að auki sérstaka skatta til viðbótar sem gefa milljarða króna.

Það er meira en hægt er að segja um ýmsar aðrar atvinnugreinar, sem hampað er í umræðunni. Ferðaþjónustan er á sérstökum afslætti í virðisaukaskattinum, leyfissalan í stangveiðinni er algerlega undanþegin sama skatti, kvikmyndagerðin fær milljarða króna endurgreiðslu úr ríkissjóði á kostnaði, allt að 35% og í nýsköpunina á höfuðborgarsvæðinu í lyfjaframleiðslu og slíku er mokað á annan tug milljarða króna á ári í styrki. Að ekki sé talað um landeldið, það fær helmingsafslátt af fiskeldisgjaldinu og ekki bólar á því að það greiði auðindagjald fyrir afnot af vatni og jarðsjó.

Loks er ástæða til þess að halda á lofti skattaspori Vestfirðinga. Innviðafélag Vestfirðinga fékk KPMG til þess að taka það saman. Niðurstaðan var að á síðasta ári voru greiðslur Vestfirðinga til ríkissjóðs 2,06 m.kr. á hvern íbúa. En greiðslur ríkissjóðs til íbúa Vestfjarða voru 1,14 m.kr. á hvern íbúa. Vestfirðingar greiddu tvisvar sinnum meira suður en þeir fengu til baka. Segja má að Vestfirðir séu skattlenda ríkissjóðs.

Yfir fimm ára tímabil 2019 – 2023 fékk ríkissjóður 60,4 milljarða króna að vestan en greiddi þangað 34,9 milljarða króna. Mismunurinn er 25,5 milljarðar króna sem má kalla nettóframlag Vestfirðinga til ríkissjóðs en KPMG kallar samfélagsspor. Það mun fara að óbreyttu hratt vaxandi á næstu árum.

Krafan um aukin framlög til samgöngumála á Vestfjörðum er studd góðum rökum.

Ástæða er til bjartsýni á Vestfjörðum á komandi ári.

Fréttavakt verður á Bæjarins besta um hátíðisdagana og fréttir fluttar eftir atvikum.

Með hátíðarkveðjum

ritstjórn Bæjarins besta

DEILA