Lögreglan á Vestfjörðum hefur sent frá sér viðvörun varðandi veginn frá Ísafirði til Súðavíkur. Veðurstofan metur aðstæður þannig að aukin hætta sé á ofanflóðum ofan vegarins milli Súðavíkur og Ísafjarðar. Ekki er þó talin ástæða til að loka veginum fyrir umferð. Hvatt er til þess að þeir sem nauðsynlega þurfa að fara þessa leið aki með varúð.
Nú fyrir fáum mínútum gaf Vegagerðin upp þær upplýsingar um færð á vegum á Vestfjörðum að flughálka væri í Steingrímsfirði, á Innstrandarvegi og á milli Gufudals og Kleifaheiði. Hálka, snjóþekja eða hálkublettir eru á flestum öðrum leiðum. Ófært er á Dynjandisheiði.
Þá var í dag, 23. desember, umferð hleypt á ný brú í botni Kollafjarðar og gömlu brúnni lokað. Athygli vegfaranda er vakinn á því að svæðið er vinnusvæði og hámarkshraði er 30 km/klst.