Hve allt var dýrðlegt
við annan brag
Þannig kvað vestfirska skáldið Stefán Sigurðsson, auknefndur frá Hvítadal, í einu jólaljóða sinna og bætti við.
á Þorláksmessu,
þann þráða dag.
Um bekki var strokið
og brík og hólf.
Góður og gegn landans siður að gera hreint í sínu húsi fyrir hátíðina miklu nær árslokin nálgast og nýtt frábært ár bíður tilbúið á kantinum. Það er eigi nóg að þrífa bara húsin heldur og rifja upp það helsta frá árinu sem er alveg að kveðja eða einsog áðurnefndur Stefán kvað.
Og allt hið gamla
var endurfætt.
Það er einmitt erindi ritara að rifja upp það helsta í starfsemi Kómedíuleikhússins atvinnuleikhús Vestfjarða á því kómíska ári 2024.
Blóðugt leikverk að sumri
Kómedíuleikhúsið starfar allt árið og árið 2024 var sannarlega annasamt einsog hér verður rakið í stórum dráttum. Fyrstu tveir mánuðir ársins voru nýttir í að undirbúa verkefni ársins bæði handritsgerð sem og fjármögnun verkefna. Þá nýttum við ekki síður tímann til markaðssetningar á leikhúsinu og tókum m.a. þátt í Mannamótum í Kópavogi hvar við kynntum okkar árlega Sumarleikhús. Næstu tvo mánuði, mars og apríl, unnum við að handritsgerð bæði á sýningu ársins Ariasman sem og að tveimur gönguferðum Fransí Biskví í Haukadal og Around Þingeyri hvort tveggja nýjar göngur í okkar starfi. Á páskum vorum við með sýningar í leikhúsinu okkar í Haukadal bæði á Dimmalimm og Lífið er lotterí, aðsókn var mjög góð. Í framhaldinu sýndum við Dimmalimm á höfuðborgarsvæðinu og í apríl hófust æfingar á Ariasman. Í maí héldu æfingar áfram á Ariasman sem stóðu alveg þar til leikurinn var frumsýndur 29. júní í Djúpuvík. Við frumsýndum einnig nýja vestfirska heimildarmynd Vélsmiðja 1913 á Skjaldborgarhátíðinni á Patreksfirði 19. maí, myndina gerðum við í samstarfi við Austan mána og Yellowleg. Myndin var svo sýnd í Félagsheimilinu á Þingeyri um sumarið. Maí var einnig nýttur til að klæða framhlið leikhússins í Haukadal sem og skifta um glugga og útidyrahurð. Það var því einstaklega gaman að geta byrjað okkar árlega Sumarleikhús Kómedíuleikhússins í Haukadal með nýtt að framan. Var þetta okkar 4 sumarleikhús sumar og hafa aldrei verið jafn margir og fjölbreyttir viðburðir í boði á dagskránni. Þar bar hæst sýning ársins sem var Ariasman, er fjallar um hin hrottalegu og blóðugu Baskamorð. Var leikurinn sýndur vikulega í allt sumar. Við byrjuðum einnig með nýja gönguferð Fransí Biskví hvar gengið var á slóðir Fransmanna í Haukadal. Einnig buðum við áfram upp á okkar vinsælu Gísla Súrsonar göngu. Sýning okkar Lífið er lotterí var sýnd nokkra ganga í sumar og svo fengum við fjölda gestalistamanna til okkar. Af gestaviðburðum Sumarleikhús Kómedíuleikhússins 2024 má nefna tónleika með Svavari Knúti, Jón og Ölmu, Áttavilt og Magnúsi Þór Sigmundssyni. Sagnakveld með Einar Kárasyni og Margréti Höskuldsdóttur. Sirrý var bæði með viðburð fyrir börn og fullorðna. Það gerði einnig Jón Víðis er var bæði með töfrasýningu og dáleiðslu. Þó sumarið hafi verið annasamt í Haukadal þá gáfum við okkur einnig tíma til að vera með enska sögugöngu á Þingeyri er fékk heitið Around Þingeyri og var einkum sótt af skemmtiferðaskipagestum.
Matti og væntanlegur draugagangur
Við gáfum einnig út nýja vestfirska barnabók í sumar, Matti saga af drengum með breiða nefið eftir listahjónin Elfar Loga Hannesson og Marsibil G. Kristjánsdóttur. Hér er á ferðinni bók er fjallar um bernsku hins vestfirska Matthíasar Jochumssonar. Í september fórum við í leikferð til Reykjavíkur og sýndum bæði Lífið er lotterí og Ariasman. Í október vorum við með lestrastundir í skólum og víðar uppúr Mattabókinni vinsælu. Í október fórum við í leikferð til Baskalands, en þar var verið að minnast hinna hrottalegu Baskamorða og fluttum við þar hina einstöku Sönnu frásögu Jóns Lærða á nokkrum stöðum í Baskalandi af því tilefni. Í október og nóvember var okkar aðalstarf handritsgerð og undirbúningur á nýju leikverki er nefnist Draugar Dýrafjarðar. Um er að ræða söguleik sem verður frumsýndur í mesta skammdeginu í Haukadal í Dýrafirði á nýju kómísku ári. Leikurinn er okkar framlag til að bjóða upp á vetrarafþreyingu bæði fyrir heimamenn og ferðamenn á Vestfjörðum. Í desember var að vanda vanda okkar megin starfi að aðstoða jólakallana er koma af fjöllunum og til byggða til að gleðja og kæta. Svona var okkar Kómíska ár 2024.
Án ykkar værum við ósköp klén
Að endingu viljum við þakka áhorfendum, velunnurum og stuðningsaðilum um land allt fyrir komuna í leikhúsið okkar og fyrir að hafa trú á atvinnuleikhúsi Vestfjarða og veita okkur þannig brautargengi til að starfa áfram. Okkar megin markmið verður enn hið sama á nýju ári að starfrækja atvinnuleikhús á Vestfjörðum árið um kring með sérstakri áherslu á okkar árlega Sumarleikhús í Haukadal Dýrafirði. Gaman er að geta þess að sumarið í Sumarleikhúsinu okkar hefur verið að lengjast í báða enda og mun sú þróun halda áfram á komandi ári svo jafnvel verði úr bara endalaust sumarleikhús, það væri nú kómískt.
Vegni ykkur öllum allt að sólu í leik og starfi.
Þess óska Elfar Logi Hannesson og Marsibil G. Kristjánsdóttir, leikhússtjórar Kómedíuleikhússins Haukadal Dýrafirði.
Kómedíuleikhúsið í Haukadal.