Takk fyrir að gefa íslensku séns og gleðilega hátíð

Við sem að Gefum íslensku séns viljum þakka öllum sem lagt hafa verkefninu lið vel og innilega fyrir þátttökuna og lofum að halda ótrauð áfram á næsta ári enda svelta sitjandi krákur. Einnig óskum við að sjálfsögðu öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Hér er svo smá greinarstúfur frá fráfarandi verkefnastjóra verkefnisins.

Ekki er loku fyrir að skotið að þú lesandi góður hafir orðið var við verkefnið Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag á árinu sem senn fer að ljúka. Verkefnið hefir og undanfarin ár vaxið og dafnað ágætlega. Tók það svo ansi öflugan vaxtarkipp á þessu ári. Núna er það næsta víst ágætlega samgróið samfélaginu á norðanverðum Vestfjörðum. Mun það og ef til vill færast á fleiri landshluta á komandi ári. Hefir og verið lagður grunnur að því nú þegar og hefir það til dæmis skotið rótum í Eyjafirði og víðar.

Fjölmargir viðburðir hafa átt sér stað á árinu og hafa þeir flestir verið sómasamlega sóttir. Komin er og ágæt regla á starfið sem nú býr svo vel að hafa yfir nægilegu fjármagni að ráða til að halda starfinu gangandi og bæta í frekar en hitt. Stöðugildi (50%) hefir meira að segja verið skapað og er það tengt Fræðslumiðstöð Vestfjarða. Eru því allar líkur á því að starfið verði enn öflugra á komandi ári og að skapaðir verði fjölmargir nýir sénsar á árinu 2025. Árétta skal af því tilefni að allir eru velkomnir á viðburði verkefnisins og er ætíð ókeypis á þá. Að fá að spreyta sig á íslensku ætti og einnig ætíð að vera að kostnaðarlausu.

Næsta víst átta sig svo æ fleiri betur á þeirri staðreynd að sé vilji fyrir því að íslenskukunnátta sé almenn meðal innflytjenda á Fróni þurfi að stuðla að hvata, þá þurfi að halda íslensku að þeim sem hingað flytjast og fyrst og síðast tala íslensku. Íslenska lærist ekki nema henni sé haldið að fólki, nema hún sé notuð. Sé enska æ brúkuð, sé enska æ hið sjálfgefna mál lærist og æfist enska. Að því gefnu að viðkomandi hafi málið ekki að móðurmáli. Ensku það er. Íslenska þarf að vera alls staðar í boði og fólk má ekki kippa sér upp við mistök eða „framandi“ hreim. Við eigum að vera komin lengra en svo.

Í grófum dráttum snýst Gefum íslensku séns einmitt um það; að vera eins konar framlenging á kennslustofunni (auðvitað þarf einnig að auka framboð íslenskunámskeiða, alls konar námskeiða til muna) og bjóða upp á margvíslegra sénsa til málnotkunar. Það er því miður alls ekki sjálfgefið á Íslandi. Ekki einu sinni hjá Ísafjarðarbæ en það er nú önnur saga.

Það hlýtur að teljast stórkostlega öfugsnúið að enska sé oftlega sjálfgefið mál lands þar sem íslenska er opinbert mál. Auk þess sem slíkt stuðlar, þegar vel er að gáð, að aðgreiningu og misskiptingu. Það er augljóst mál að þeir sem síður hafa málið á valdi sínu búa að færri möguleikum auk þess sem þeir eru ólíklegri til að vera þátttakendur í lýðræðislegri umræðu sem, viti menn konur og kvár, fer fram á íslensku og mun gera það áfram.

En hvað um það. Ég er ánægður með að hafa notið velvilja margs góðs fólks hér fyrir vestan við að gera verkefnið að því sem það er. Er það og von mín að það muni dafna á komandi ári undir stjórn nýs verkefnastjóra og undir handbendi Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða. En undirritaður kemur til með að hætta beinum afskiptum af Gefum íslensku séns í febrúar á næsta ári.

Verkefnið er alltént komið á þann stað að það hefir alla burði til að vaxa og dafna enn frekar.  Gleðilega hátíð og gefum nú íslensku risaséns á komandi ári. Málið á það sannlega skilið.

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson, fráfarandi verkefnastjóri Gefum íslensku séns

www.gefumislenskusens.is

DEILA