Vegurinn um Raknadalshlíð í Patreksfirði er nú lokaður og sömuleiðis Kleifaheiðin. Lítil snjóflóð hafa verið að falla úr hlíðum ofan vegarins um Raknadalshlíð.
Í tilkynningu lögreglunnar á Vestfjörðum segir að aðstæður verði skoðaðar, með Veðurstofa Íslands um hádegið í dag m.t.t. hvenær óhætt er að opna veginn á ný.
Á vef Vegagerðarinnar segir að flughálka sé í Dýrafirði einnig á Vestfjarðarvegi á milli Gufudals og Flókalundar og á Barðaströnd. Þæfingsfærð er í Ísafjarðardjúpi og Steingrímsfjarðarheiði. Hálka eða snjóþekja og sjókoma er nokkuð víða á öðrum leiðum. Ófært er á Dynjandisheiði.
Þau sem hyggja á ferðalög milli svæða eru hvattir til þess að afla sér upplýsinga áður. Vegum undir bröttum hlíðum á Vestfjörðum gæti verið lokað með stuttum fyrirvara í þeim aðstæðum sem nú er.
Snjór hefur safnast í hlíðar og hlýnað hefur í veðri með rigningu. Kólna fer þegar líður á daginn.