Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar afturkallaði á fundi sínum síðasta fimmtudag leyfi til skógræktar í landi Brekku. Hafði bæjarstjórnin veitt leyfið þann 5. desember.
Skipulagsstofnun gerði athugasemdir 10. desember og taldi stofnunin að framkvæmdin væri tilkynningaskyld til Skipulagsstofnunar ákvörðunar um matsskyldu, þar sem um væri að ræða nýræktun skóga á verndarsvæðum. Telur Skipulagsstofnun óheimilt að gefa út leyfið fyrr en álit stofnunarinnar liggur fyrir um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar eða ákvörðun stofnunarinnar um að framkvæmd sé ekki matsskyld.
Á bæjarstjórnarfundinum lagði Jóhann Birkir Helgason (D) fram tillögu að að leyfið yrði ekki afturkallað þar sem svæðið þar sem skógræktin er fyrirhuguð er landbúnaðarsvæði og þar að auki væri það ræktað svæði. Það félli því ekki undir svæði það sem skráð væri á náttúruminjaskrá.
Tillaga Jóhanns var felld með 5 atkvæðum Í lista gegn 2 atkvæðum D lista. Síðan var samþykkt tillaga um afturköllun leyfisins með sjö atkvæðum. Tveir sátu hjá.
Framkvæmdaaðilinn að skógræktinn þarf því að þessari afgreiðslu genginni að senda inn erindi til Skipulagsstofnunar sem mun fyrst meta hvort framkvæmdin þurfi að fara í umhverfismat.