Ný ríkisstjórn tók við völdum um helgina og kunngerð var stefnuyfirlýsing flokkanna þriggja sem að henni standa.
Yfirlýsingin er almennt orðuð og fátt gefið upp um beinar aðgerðir. Það bendir til þess að flokkarnir hafi ekki enn komið stefnuyfirlýsingunni á aðgerðaplan og vilji gefa sér lengri tíma til þess að komast frá orðum til athafna.
Yfirlýsingin gefur þó í ýmsu góð fyrirheit sem ástæða er til þess að binda vonir við.
Þriðji liður stefnuyfirlýsingarinnar fjallar um samgöngumál. Það er í sjálfu sér góðs viti og er til marks um að forystumenn ríkisstjórnarinnar vilja gera vel í þeim efnum að samgöngumálum eru meðal fyrstu atriði á yfirlýsingunni. Því til frekari áréttingar má vísa til ummæla Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar og utanríkisráðherra í Silfri RUV á laugardaginn. Þar lagði hún áherslu á samgöngubætur. M.a. sagði hún að bæta þyrfti vegakerfið og að ávallt ættu að vera ein jarðgöng í gangi.
Kaflinn í stefnuyfirlýsingunni er svohljóðandi:
„Með því að auka fjárfestingu í samgöngum og hefja kraftmiklar framkvæmdir um land allt. Ríkisstjórnin mun rjúfa kyrrstöðu í jarðgangagerð og vinna á viðhaldsskuld í vegakerfinu. Ráðist verður í mikilvægar úrbætur í samræmi við samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins til að greiða fyrir umferð á stofnvegum, efla almenningssamgöngur og styðja við fjölbreytta ferðamáta. Hafist verður handa við framkvæmd Sundabrautar og verkefnið fjármagnað með innheimtu veggjalda.“
Þetta lofar góðu.
Jöfnum leikinn
Til viðbótar þá er nýi samgönguráðherrann, Eyjólfur Ármannsson, með lögheimili á Hrafnabjörgum í Lokinhamradal í Arnarfirði og þingmaður kjördæmisins.
Fjórir af sjö þingmönnum kjördæmisins eru með lögheimili á Vestfjörðum. Þeir eru allir stjórnarliðar. Þeim er öllum vel ljóst hvað þörfin fyrir stórfellt átak í samgöngumálum Vestfjarða er mikil og þeir þekkja allir þau verkefni í vegagerð og jarðgangagerð sem Vestfirðingar kalla eftir til þess að jafna leikinn til jafns við þær aðstæður sem aðrir landsmenn velflestir búa við en Vestfirðingar ekki.
Alþingiskosningarnar hafa fært Vestfirðingum stöðu til þess að hafa meiri áhrif en oft áður um langt skeið á mikilvægar ákvarðanir landstjórnarinnar.
Nú reynir á á næstu vikum að nýta þetta tækifæri til þess að fá fram ákvarðanir um samgönguframkvæmdir, að komast frá áhrifum til athafna.
Þar mun skipta máli framtak 14 fyrirtækja á Vestfjörðum, sem undir nafni Innviðafélags Vestfjarða hafa talað fyrir og auglýst stórfellt átak í samgöngumálum á Vestfjörðum og kynnt hugmyndir um fjármögnum og greiðslur sem gera kleift að vinna á næstu árum að framkvæmdum og dreifa greiðslunum á lengra tímabil.
Það er ekki bara samgöngusáttmáli fyrir höfuðborgarsvæðið sem þarf að útfæra heldur líka samgöngusáttmáli fyrir Vestfirði. Nýja ríkisstjórnin þarf að átta sig á því að aðstæður í þjóðfélaginu verða ekki jafnaðar með því að gera átak þar sem aðstæður eru bestar og færa það svæði enn framar en hin eru heldur verður að bæta aðstæður þar sem þær eru lakastar og þau svæði færð nær hinum sem betur standa. Það er kjarninn í jafnaðarstefnunni. Yfirlýsingar hins nýja forsætisráðherra, bæði fyrir kosningar og að þeim loknum eru á þann veg að það sé einmitt ætlun hennar.
Forsætisráðherrann og samgönguráðherrann eru hvattir til þess að hitta forsvarsmenn atvinnulífsins á Vestfjörðum í Innviðafélagi Vestfjarða og vinna að samgöngusáttmála fyrir Vestfirði. Planið liggur fyrir. Vestfirðingar eru vel undirbúnir.
-k