Í tilkynningu frá Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu segir að á síðustu fimm árum hafi 1,7 milljörðum króna verið varið til nýsköpunarverkefna á landsbyggðinni. Verkefnin tengjast Eimi á Norðurlandi, Orkídeu á Suðurlandi og Bláma á Vestfjörðum.
„Alls hafa bakhjarlar verkefnanna lagt til um 680 milljónir króna, en aðrir styrkir nema rúmlega einum milljarði. Þeir eru af ýmsu tagi, en þeir stærstu eru Horizon- og Life-styrkir frá Evrópusambandinu og styrkir frá innlendum sjóðum á borð við Orkusjóð, Lóu og Matvælasjóð. Samstarfsverkefnin eiga það sameiginlegt að stuðla að orkutengdri nýsköpun og orkuskiptum með því að byggja á styrkleikum, auðlindastraumum og áhuga hvers svæðis fyrir sig.“
Blámi 480 m.kr. styrkir
Blámi er samstarfsverkefni umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins, Landsvirkjunar, Orkubús Vestfjarða og Vestfjarðastofu. Meginmarkmið Bláma er að styðja við og efla nýsköpun og þróun orkuskiptaverkefna með því að auka hlut vistvæns eldsneytis, vetnis og rafeldsneytis í samgöngum og iðnaði. Alls nema styrkir til verkefna Bláma 480 milljónum króna á fyrrnefndu tímabili.
Haft er eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Við höfum lagt á það áherslu á þessu kjörtímabili að styrkja og styðja við nýsköpunarstarfsemi um land allt og það er ánægjulegt að fylgjast með eftirtektarverða árangri þessara verkefna, sem ekki bara styðja við betri orkunýtingu og aukna verðmætasköpun heldur skapa líka áhugaverð störf fyrir sérfræðimenntað fólk sem flutt hefur getað aftur í heimabyggð eftir að hafa fengið starf við sitt hæfi.