Sveitarfélagið Vesturbyggð stendur fyrir vali á orði ársins 2024. Íbúum gafst kostur á aðsenda inn tillögu að orði ársins og bárust alls 24 tillögur.
Valin hafa verið 10 orð sem kosið verður um.
Hægt er að kjósa til miðnættis kvöldsins 26. desember, úrslitin verða kunngjörð daginn eftir á heimasíðu Vesturbyggðar. Kosningin er nafnlaus.
Hér eru orðin sem kosin eru um, ásamt útskýringum:
- Innviðir
Orð sem var mikið í deiglunni í árinu, meðal annars í tengslum við alþingiskosningar. - Jarðgöng
Göng undir Mikladal, Hálfdán og fleiri heiðar eru stöðugt í umræðunni. - Kosningar
Íbúar Vesturbyggðar gengu þrisvar sinnum í kjörklefann á árinu. - Kraftur
Í tillögunni segir að það sé mikil uppbygging, jákvæðni og ákveðni í sveitarfélaginu. - Neysluhlé
Í nýjum kjarasamningum er kveðið á um neysluhlé í stað kaffipásu. - Rizz
Þetta slanguryrði er afbökun á enska orðinu charisma og er notað jafnt sem nafnorð og sagnorð. Það vísar til sjarma og hæfni til að heilla aðra. Í tillögu segir „Tálknafjörður rizzaði sig vel upp þegar hann sameinaðist Vesturbyggð“. - Samgöngur
Í tillögu segir „Allt veltur á góðum samgöngum og umræðan er alltaf í gangi.“ - Sliving
Þetta er slanguryrði samansett af slanguryrðunum slay og living og merkir að ná árangri, njóta lífsins, vera frábær o.þ.h. Í tillögum segir „Maður er bara alltaf sliving á Vestfjörðum“ og „Með nýju sameinuðu sveitarfélagi kemur helst upp í hugann sliving.“ - Vatnsdalsvirkjun
Lifandi umræða var um hugsanlega Vatnsdalsvirkjun á árinu, meðal annars í tengslum við sveitarstjórnar- og alþingiskosningar. - Vatnslaust
Í tillögu segir að vatnsleysi hafi verið „aðal fréttin á heimasíðu Vesturbyggðar.“ Vissulega þurfti óvenju oft að loka fyrir vatnið í ár.