Góður árangur í arnarvarpi

Gunnar Þór Hallgrímsson og Svenja Auhage afla gagna um afkomu arna. – Ljósm. Þorfinnur Sigurgeirsson

Sagt er frá því á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands að afkoma hafarna árið 2024 fafi verið með svipuðu móti og árið á undan.

Á þessu ári urpu að minnsta kosti 68 arnarpör og 43 þeirra komu upp að minnsta kosti 55 ungum. Þar af var 51 ungi merktur.

Þetta er sambærilegur árangur og árið 2023 þegar 43 pör komu upp 56 ungum. Árið 2022 var hins vegar með lakari árum í nýliðun. Arnarstofninn heldur áfram að vaxa hægt en stöðugt og nú eru um 90 arnaróðul í ábúð á vestanverðu landinu, frá Faxaflóa norður í Húnaflóa. 

Á hverju sumri síðan 2019 hafa GPS/GSM-leiðarritar verið settir á arnarunga á öllu  varpsvæðinu. Þessi tæki eru notuð til að skoða búsvæðanotkun og ferðir arna.

Á árunum 2019–2023 fengu 53 arnarungar slíka senda og sumarið 2024 bættust 19 ungar í hópinn. Af þessum 72 fuglum eru 49 fuglar enn á lífi með virka senda; 35 fuglar frá fyrri árunum og 14 fuglar frá þessu ári. 

Dánarorsakir þeirra sem hafa drepist eru af ólíkum toga, þar á meðal fuglaflensa, flug á raflínu, blýeitrun (eftir að hafa étið gæsarhræ) og drukknun. 

DEILA