Það var mikil og góð reynsla að fara í gegnum nýafstaðna kosningabaráttu sem oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi. Baráttan var snörp en á sama tíma ótrúlega skemmtileg. Fyrir mig persónulega var brekkan brött þar sem flokkurinn hefur ekki áður náð kjöri í kjördæminu. En ætlunarverkið tókst og ég er afar þakklát fyrir stuðninginn og traustið. Það skiptir miklu máli fyrir Viðreisn að eiga nú þingmenn í öllum kjördæmum. Það mun án efa þroska flokkinn og skilninginn á stöðu hvers landshluta fyrir sig. Skilaboð kjósenda voru skýr – fólkið í landinu er að kalla eftir breytingum. Nú er mikilvægt fyrir nýja ríkisstjórn að svara því kalli með afgerandi hætti.
Innviðaskuldir
Það sem ég tek með mér úr kosningabaráttunni var að það skipti ekki máli hvert ég fór um kjördæmið – rætt var um innviðaskuld og skort á grunnþjónustu. Hvort sem var í samgöngumálum, orkumálum eða heilbrigðismálum. Það verður ekki hjá því litið að þetta er einfaldlega bara staðan. Við megum ekki við áframhaldandi kyrrstöðu í þessum efnum. Nú þarf að þoka málum áfram. Það mun því reyna verulega á okkur sem erum kjörnir fulltrúar fyrir ykkur að halda Alþingi og nýrri ríkisstjórn við efnið. Vera ykkar málsvarar og þoka málum áfram. Það skiptir líka öllu máli að þingmenn kjördæmisins vinni allir sem einn að því að vekja athygli á stöðu kjördæmisins. Það stendur hið minnsta ekki á mér þegar það kemur að slíku samstarfi eða samtali, þvert á flokka, stjórn eða stjórnarandstöðu.
Rafmagnsflökt og ófærð
Ég vil nýta tækifærið og þakka ykkur fyrir að gefa ykkur tíma til að spjalla við mig í kosningabaráttunni, hvort sem var á kennarastofunni, í sundlauginni, á kaffistofunni eða á bensínstöðinni. Allt voru þetta samtöl sem ég tek með mér í veganesti inn í komandi þingvetur. Ég hlakka mikið til að koma sem oftast í heimsókn og halda samtalinu gangandi. Okkar samtal er bara rétt að byrja.
Ég óska íbúum kjördæmisins gleðilegra jóla og vona að þið hafið það hlýtt og gott yfir hátíðarnar. Vonandi flöktir rafmagnið ekki of mikið svo að jólasteikin komist alveg örugglega á hátíðarborðið. Og vonandi verða vegirnir færir svo að fjölskyldan geti á öruggan hátt sameinast um jólin.
Maður má hið minnsta vona.
Höfundur er oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi
María Rut Kristinsdóttir
Þingmaður Viðreisnar