Vestri körfubolti – Special Olympics: „Þessar æfingar eru toppurinn á vikunni“.

Í september sl. byrjaði körfuknattleiksdeild Vestra, í samstarfi við Íþróttafélagið Ívar, að bjóða upp á körfuboltaæfingar fyrir börn á aldrinum 6-16 ára. Þessar æfingar eru hugsaðar fyrir börn sem þurfa t.d. meiri stuðning, henta betur að vera í minni hópum og hafa aðgengi að fleiri þjálfurum á æfingum. Þar finna þjálfararnir leiðir til að aðlaga íþróttina að iðkendum svo þau geti notið sín á eigin forsendum, ásamt því að upplifa sig sem hluta af liði.

Þórir Guðmundsson, formaður barna og unglingaráðs körfuknattleiksdeildar Vestra, segist hafa sett sér það markmið að byrja með verkefnið þegar lið frá Vestra, sem hann var að þjálfa, spilaði leik á móti Haukum Special Olympics liðinu. Þórir varð heillaður við að sjá liðið spila því þarna voru komnir krakkar sem elskuðu að fá að vera með, það voru engin vandamál heldur bara gleði og gaman. Þegar Valdimar Gunnarsson, verkefnastjóri Allir með (allirmed.com) kom vestur með kynningu á því verkefni, ákvað barna og unglingaráð kkd. Vestra að slá til og fékk styrk úr Hvatasjóði til þess.

Yfirþjálfari hópsins er Egill Fjölnisson en hann er leikmaður meistaraflokks karla í Vestra og hefur reynslu af störfum við stoðþjónustu hjá Ísafjarðarbæ, ásamt því að hafa lokið sálfræðinámi frá Háskólanum í Reykjavík. Áður en æfingar hófust fór Egill á æfingar hjá Haukum Special Olympics til að fylgjast með starfinu og fá ráð frá yfirþjálfurum, en Haukar eru fyrirmynd körfuknattleiksdeildar Vestra í þessu verkefni. Á hverri æfingu eru 3-5 þjálfarar, en Agli til aðstoðar eru þjálfarar úr körfuknattleiksdeild Vestra og frá Íþróttafélaginu Ívari. Gríðarleg spenna er innan körfuknattleiksdeildarinnar fyrir þessu verkefni og eru allir tilbúnir til þess að gera allt sem þeir geta til að hjálpa til.

Körfuknattleiksdeild Vestra rukkar engin æfingagjöld fyrir þessar æfingar og fá iðkendurnir Vestra búninga og skó að gjöf frá félaginu. Fyrir krakkana er það mjög dýrmætt að tilheyra stærsta íþróttafélaginu á svæðinu og að eignast Vestra búninga með sínu nafni. Markmiðið er að reyna að ná krökkunum á æfingar og eiga æfingagjöld eða liðsfatnaður ekki að vera því til fyrirstöðu.

Mætingin hefur farið fram úr björtustu vonum. Þórir stillti væntingum í hóf og bjóst við 1-2 börnum fyrsta árið, en að jafnaði eru u.þ.b. 8 – 10 börn að mæta á æfingar. Því má segja að þetta verkefni hefur gengið vonum framar. Þetta eru ólíkir krakkar með mismunandi áskoranir, en Þórir segir það gaman að kljást við það og ná þeim öllum saman á einn grundvöll. Börnin eru mjög ánægð með æfingarnar og er gleðin alls ráðandi. Krakkarnir hafa tekið miklum framförum síðan þau byrjuðu að æfa og segist Þórir sjá mikinn mun á þeim. Mörg höfðu aldrei haldið á bolta en eru nú farin að drippla boltanum og skilja meira út á hvað leikurinn gengur. Sum börn þorðu ekki inn í salinn til að byrja með en nú njóta þau þess í botn að vera á æfingum. Börnin fá einnig mikla valdefingu út úr því að mæta og aukið sjálfstraust við að sjá að þau geti þetta.

Foreldrar hafa tekið æfingunum fagnandi. Ein móðirin segir að þessar æfingar séu toppurinn á vikunni hjá dóttur sinni. Hún er mjög viljug að mæta og er spenntari fyrir því að hreyfa sig en áður. Það er mjög takmarkað í boði á svæðinu sem miðað er að börnum með sérþarfir, og því er frábært að Körfuknattleiksdeild Vestra hafi tekið af skarið með þetta verkefni. Allir eru þarna á sínum forsendum og enginn að pæla í öðrum. Þegar Þórir heyrir sögur þar sem foreldar dásama verkefnið og hvað það hefur gert mikið fyrir börnin sín, fær hann gæsahúð; „Ef maður heyrir eina svoleiðis sögu, þá er það nóg. Allt annað er plús“.

Það er ekki skilyrði að krakkar séu með greiningar til að mæta á æfingar. Æfingarnar eru í raun fyrir öll þau sem finna sig ekki annars staðar; ef þau finna sig ekki í hefðbundnu íþróttastarfi eru þau velkomin. Þetta verkefni komið til að vera og það fer stækkandi. Það er markmiðið.

Körfuboltaæfingarnar eru á miðvikudögum kl. 16.50-17.50 á Torfnesi á Ísafirði.

(Nánari upplýsingar um Allir með verkefnið má finna inn á síðunni www.allirmed.com )

Frá æfingu hjá körfuknattleiksdeild Vestra.

Myndir: Vestri.

DEILA