Reglur um ljósabúnað – einkum vörubíla

Samgöngustofa vekur athygli á reglum um ljósabúnað, sérstaklega ljósum og gliti á vörubílum.

Töluvert hefur verið um fyrirspurnir er varða ljósabúnað þessara bíla, hvort leyfilegt sé að hafa ljósin sem oft sjást á þeim og svo líka kvartað undan ljósmagninu sem stundum er.

Óheimilt er að setja ljós og glit á ökutæki nema það sé skylt eða sérstaklega leyft að hafa viðkomandi ljós eða glit.

Merkjanleg aukning er á notkun óleyfilegra ljósa af ýmsu tagi á vörubílum síðustu ár, sérstaklega á flutningabílum sem aðallega eru notaðir utan þéttbýlis. Tilkoma díóðuljósanna á þar líklega stærstan þátt.

Samgöngustofa hefur haft af þessu áhyggjur og hefur beitt ýmsum leiðbeinandi úrræðum á árinu og verið í sambandi við skoðunarstofur ökutækja og umferðareftirlit lögreglu.

Gera má ráð fyrir strangari viðbrögðum í skoðunum varðandi þetta atriði á næsta ári, svo og í umferðareftirliti.

Umrædd ljós eru nær undantekningarlaust eftirásett ljósker sem eru ekki hluti af ljósabúnaði bílanna eins og þeir koma frá framleiðendum.

Mikið er um allskonar smáljós sem virðast vera til skrauts og allt of marga ljóskastara.

Þessi aukaljós sem hvorki er skylt að hafa né sérstalega leyfð eru óheimil.

DEILA