F. 11. febrúar 1926 – D. 8. desember 2024.
Jarðsunginn frá Guðríðarkirkju 16. desember 2024.
Ógleymanleg er okkur hjartahlýja og gestrisni Dórótheu og Jóns á Laugabóli, þegar við vorum á ferð milli Holts og höfuðstaðarins.
Fyrstu kynni okkar Jóns urðu í símtali í september 1999; umræðuefnið var landamerkjasteinn í Holtsfjalli í Önundarfirði.
Í október komum við að Laugabóli á leið suður í “hið ofvaxna fiskiþorp við Faxaflóa” (eins og síra Stefán heitinn á Þingeyri var vanur að segja); Jón hafði farið að gá til kinda. Dóra vann okkur voldugan beina. Þá var staddur á Laugabóli Gústi sæli í Múla.
Á jólaföstunni vorum við enn á ferðinni suður og þá fengum við að gista á Laugabóli. Fundum við glöggt, hvað við vorum innilega velkomin. Á meðan við gengum í bæinn, sagði Jón hvað eftir annað: “Gjörið þið svo vel!” Eftir kaffið morguninn eftir var ekki við annað komandi en að við þægjum hádegisverð, en við þurftum að hraða okkur, og þá bað Jón okkur lengstra orða að láta ekki bregðast að koma við aftur á heimferðinni.
Í öndverðum febrúar árið 2000 vorum við enn á skjögti vestur, og vorum þá á Laugabóli nætursakir, eftir að hafa þegið rausnarlegar góðgerðir. Morguninn eftir var lítið eitt frjósandi á Laugabóli, en logn veðurs og sólskin. Á túninu stóðu hrossin og gæddu sér á vel verkaðri töðu úr stórum, ilmandi heyböggum.
Skömmu síðar vorum við enn á heimleið, urðum sein fyrir í þæfingi, en Jón kom á móti okkur og höfðu þau Dóra beðið með kvöldmatinn handa okkur þangað til á tíunda tímanum. Þá var staddur hjá þeim Jóhann Ólafsson, landbúnaðarfræðingur frá Klébergi.
Á boðunardag Maríu þetta ár var þungfært norður yfir Steingrímsfjarðarheiði. Við nutum þá góðrar aðstoðar Jóns Kristjánssonar á Hólmavík, sem hengdi okkur af miklum velvilja aftan í bifreið sína. Þegar loksins fór að halla niður af, kom Jón á móti okkur, eins og engill af himnum ofan, ásamt með Gísla heitnum Hjartarsyni, og hjálpuðu þeir okkur yfir síðasta farartálmann. Heima á Laugabóli beið Dóra með dásamlegan og óviðjafnanlegan mat: heita kjötsúpu. Morguninn eftir fengum við að skreppa með Jóni og Gísla upp í Laugardalinn að svipast um eftir 33ja vetra klár, sem hét Jarpur. Hann fannst, og Jón kvað hann mundu koma heim af sjálfsdáðum.
Snemma í apríl 2000 gistum við enn og aftur hjá Dóru og Jóni á suðurreisu. Þá sýndu þau hjón okkur Nauteyrarkirkju, þetta fallega guðshús. Á eftir var sest að dýrlegum kvöldverði. Í kirkjunni kom okkur í hug það, sem síra Baldur heitinn Vilhelmsson sagði, að það hefðu verið einhverjar eftirminnilegustu stundirnar í prestskap hans, þegar hann var að undirbúa guðsþjónusturnar á Nauteyri með sóknarformanninum og meðhjálparanum Jóni Guðjónssyni.
Undir miðjan maí sama árs þágum við enn kvöldverð og næturgreiða á Laugabóli. Þar voru þá Guðmundur Oddsson, Kristján, bróðir Árilíu Jóhannesdóttur og Gústi í Múla. Við vorum um þær mundir að flytja austur að Bergþórshvoli. Báðu þau Jón og Dóra okkur fyrir alla muni að koma nú við, ef við yrðum á ferð um Vestfirði. Síðast hringdi Jón okkur upp hinn 18. maí þessa árs og var þá ern og ótrauður í máli.
Vinátta þessara sæmdarhjóna og greiðasemi mun aldrei líða okkur úr minni. Við Ágústa endurminnumst þeirra alltaf með mikilli hlýju og virðingu. Guð blessi minningu Jóns Guðjónssonar. Guð blessi, huggi og styrki ástvini hans alla í Jesú nafni.
Gunnar Björnsson,
pastor emeritus.