Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar hefur afgreitt frá sér vinnslutillögu að deiliskipulagsbreytingum í Seljalandshverfi, unnið af Verkís ráðgjöfum fyrir Orkubú Vestfjarða ohf. vegna nýting jarðhita.
Rannsóknaboranir vegna jarðhita í Tungudal í Skutulsfirði í sumar leiddu í ljós að nýta má jarðhitann til húshitunar. Orkubú Vestfjarða (OV) áformar að hefja nýtingu jarðhita sem fyrst ofan Skógarbrautar í
Seljalandshverfi. Ein af rannsóknarholum á svæðinu hefur nú þegar verið útbúin sem vinnsluhola (TD09) og unnið er að frekari rannsóknum, m.a. með borunum. Umrætt svæði er nú skilgreint sem svæði fyrir íbúðarbyggð í gildandi aðalskipulagi. Leggja þarf hitaveitulagnir að kyndistöðvum til að koma heitu vatni til notenda. Gert er ráð fyrir að dælustöð rísi á Torfnesi og dæluhús við Skógarbraut.
Markmið aðalskipulagsbreytingarinnar eru að:
- Heimila nýtingu jarðhitavatns af jarðhitasvæðinu í Tungudal til húshitunar á Ísafirði.
- Heimila stofnlagnir og dælustöð hitaveitu til að leiða jarðhitavatn frá uppsprettu í borholum innan svæðisins að kyndistöðvum Orkubús Vestfjarða á Tunguskeiði og við Mjósund.
- Skapa aðstöðu fyrir vinnslu og dælingu jarðhitavatnsins við borholur í Seljalandshverfi.
- Heimila frekari jarðhitaleit innan svæðisins.
- Tryggja að framkvæmdir valdi sem minnstum neikvæðum áhrifum á umhverfið og að vandað verði til umhverfisfrágangs.
Byggingarmagn íbúðarhúsa minnkar frá gildandi skipulagi en í skipulaginu er gert ráð fyrir að mögulegt verði að nýta hluta svæðisins ofan Skógarbrautar fyrir íbúðarbyggð að lokinni jarðhitaleit.
Skipulags- og mannvirkjanefnd fól skipulagsfulltrúa að kynna tillögu á vinnslustigi.
Bókað var:
Áður en tillaga að deiliskipulagi er tekin til afgreiðslu í sveitarstjórn skal tillagan, forsendur hennar og umhverfismat kynnt íbúum sveitarfélagsins og öðrum hagsmunaaðilum á almennum fundi eða á annan fullnægjandi hátt. Skal kynningin auglýst með áberandi hætti. Sveitarstjórn er heimilt að falla frá slíkri kynningu ef allar meginforsendur liggja fyrir í aðalskipulagi. Að lokinni kynningu skal deiliskipulagstillagan lögð fyrir sveitarstjórn til afgreiðslu.