Mikill verðmunur á bókum

Verðmunur á bókum er í einhverjum tilfellum næstum þrefaldur að því er kemur fram hjá verðlagseftirliti ASÍ.

Mikill munur er á bókaverði, ekki bara milli dagvöruverslana og bókabúða, heldur líka milli bókabúða. Penninn-Eymundsson og A4 voru að jafnaði dýrustu staðirnir til að kaupa bækur samkvæmt úttekt verðlagseftirlitsins.

Langstærsta bókaúrvalið var hjá Forlaginu, Bóksölu stúdenta og hjá Eymundsson, með um 750-800 bækur til skoðunar í þessari könnun.

Næst komu dagvöruverslanirnar Bónus, Nettó og Hagkaup með 170-200 bækur. Rúmlega 60 bækur voru til í A4, helst barnabækur, og um 30 í Nexus. Þessi samanburður endurspeglar ekki í öllum tilfellum vöruúrval verslananna í heild, heldur fjölda bóka sem voru samanburðarhæfar.

Alls voru 800 bækur til skoðunar í Eymundsson. Þótt verslunin hafi að jafnaði verið í dýrari kantinum var engu að síður lægsta verðið á 25 bókum þar. Til dæmis fékkst bókin Maðurinn með strik fyrir varir þar á 1.999kr, en hún kostaði 5.490kr hjá Forlaginu. Aftur á móti seldi Forlagið Ást Múmínálfanna á 999kr, en hún kostaði 2.599kr hjá Eymundsson. Bóksala stúdenta bauð Björn Pálsson: Flugmaður og þjóðsagnapersóna á 2.995kr, en hún kostaði 8.599kr í Eymundsson. En Allt um heilsuna: Hugmyndir og góð ráð fyrir lífið sjálftkostaði 2.295kr í Bóksölunni en aðeins 990kr í Eymundsson. Forlagið verðlagði hana á 890kr en hún er sem stendur uppseld hjá þeim.

DEILA