Minning: Vilberg Valdal Vilbergsson

Villi Valli er látinn.

Okkar mikli harmonikusnillingur, heiðursborgari Ísafjarðar og bæjarlistamaður lést á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík 6. nóvember sl.

Hann fæddist á Flateyri við Önundarfjörð, en fluttist ungur til Ísafjarðar til að læra hárskurð, sem hann stundaði þar um áratuga skeið. Það má því segja að hann hafi haft hendur í hári ungra og eldri og nánast allir bæjarbúar „þekktu þennan mann“. En þótt rakarinn væri þekktur og dáður fyrir sín elskulegheit og framkomu við samborgarana, var það músikin sem stóð upp úr. Hamonikan hefur fylgt honum nánast allt hans líf frá því á Flateyri, og í gegnum harmonikuna kom spuninn og lífsgleðin.

Villi var bæði skapandi og túlkandi listamaður. Hann spilaði á mörg hljóðfæri og m.a. saxófón um árabil, bæði í lúðrasveit og danshljómsveitum. Þær eru fjölmargar danshljómsveitirnar sem hann stofnaði og stjórnaði, útsetti og samdi fyrir. Þá stjórnaði hann Lúðrasveit Ísafjarðar og hljómsveit Hamonikufélags Vestfjarða á tímabili.

Villi Valli samdi fjölda laga, sem hafa náð eyrum almennings og tveir diskar hafa komið út: „Villi Valli“ árið 2000 og „Í tímans rás“ árið 2008, sem tilnefndur var til íslensku tónlistarverðlaunanna sem einn af bestu djass diskum það árið. Þá hefur hann spilað með fjölda landsfrægra hljóðfæraleikara við hin ýmsu tækifæri, t.d. í tengslum við árlegar saltfiskveislur í Tjöruhúsinu í Neðstakaupstað á Ísafirði.

En Villi var fjöllistamaður eins og kona hans, Guðný Magnúsdóttir, sem er látin. Þau voru bæði myndlistamenn og héldu sýningar, auk þess sem Villi var þekktur fyrir marga skemmtilega skúlptúra.

Í fámennari sveitarfélögum á Íslandi verða oft ákveðnir einstaklingar „mikilvægari“ en aðrir að mati samfélagsins. Villi var einn af þeim, hann var fyrirmyndarmaður, hógvær og lítillátur listamaður. Bæjarstjórn útnefndi hann bæjarlistamann árið 2001 og í apríl 2018 var samþykkt að gera hann að heiðursborgara bæjarins.

Að leiðarlokum ber að þakka Villa Valla fyrir samfylgdina, hún var ánægjuleg, lærdómsrík og þroskandi.

Börnum hans, Rúnari, Söru, Bryndísi og Svanhildi og fjölskyldum þeirra eru færðar samúðarkveðjur.

Magnús Reynir Guðmundsson

DEILA