Strandabyggð – Engar hótanir og ástæðulaus úrsögn úr sveitarstjórn

Af fundi 1371 í sveitarstjórn Strandabyggðar, dagskrárliður 27.

Hótanir eða hótun? Símtöl eða símtal? Hringdi Jóhann Lárus eitt símtal sameiginlega til þeirra Sigríðar og Óskars eða voru hringd tvö símtöl, þ.e. eitt til Sigríðar og eitt til Óskars og fór þá sama misskilda orðfærið í gegnum bæði símtölin eða eitthvað allt annað? Það er erfitt að átta sig á því hvað fram fór þegar sameiginleg yfirlýsing Sigríðar, Óskars og Jóhanns er lesin en þó virðist alveg ljóst eftir lesturinn að ekki var um hótanir eða hótun að ræða heldur „að um væri að ræða mjög mismunandi sýn og túlkun á símtölunum“ ein og segir í yfirlýsingunni. Sérstaklega áhugavert þegar haft er í huga að þau Sigríður og Óskar voru búin að leita til lögmanns sveitarfélagsins og til Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna þessa máls og því væntanlega búið að fara ítarlega yfir það sem sagt  var og fram fór. Bókun þeirra Sigríðar og Óskars frá fundi 1369 er því endanlega orðin marklaus. Úrsögn þeirra úr sveitarstjórn virðist að sama skapi tilefnislaus, að minnsta kosti er orsökin ekki hótun eða hótanir frá Jóhanni Lárusi eða úr baklandi A lista eins og bókunin frá fundi 1369 kvað á um. Það er alveg óskiljanlegt af hverju samtalið sem leiddi til yfirlýsingar þeirra þriggja var ekki tekið fyrr, því með niðurstöðu úr því samtali hefðu Óskar og Sigríður væntanlega ekki óskað eftir lausn frá sveitarstjórn – eða hvað? Getur verið að ástæðan fyrir úrsögn þeirra sé önnur? Persónulega dettur mér helst í hug að þau hafi ekki lengur treyst sér til að styðja meirihluta T listans áfram í sveitarstjórn og því viljað út.

Undir lok þessa sama dagskrárliðar leggur oddviti fram eftirfarandi bókun:

„Það er ómögulegt fyrir þau okkar sem hér eru að setja okkur í spor þeirra sveitarstjórnarmanna sem fengu hótanir, sem ollu því að þau óskuðu eftir lausn frá störfum. Það er sömuleiðis ómögulegt fyrir okkur að meta og skilgreina hvað felst í orðinu bakland og það dugar flestum að fylgjast með orðum og skrifum á samfélagsmiðlum til að vita um hvað málið snýst. En ég skil vel áhyggjur A-lista fólks því við í T-lista þekkjum vel hvað er að sitja undir rangri sök. Ég hvet A-lista fólk til að gera grein fyrir sinni stöðu hvað þetta mál varðar og koma þar með í veg fyrir frekari mistúlkun.“

Það er erfitt að átta sig á hvaða tilgangi þessi bókun oddvita á að þjóna. Yfirlýsing Sigríðar, Óskars og Jóhanns sagði það sem þau vildu segja og oddviti hefur ekkert með að bæta við hana á neinn hátt, enda þau ekki á staðnum til að samþykkja eða mótmæla. Mögulega er hann þó að réttlæta það að það sé í lagi að kasta fram staðhæfulausum fullyrðingum og ónákvæmu orðalagi til að ná vilja sínum fram. Bókun Óskars og Sigríðar frá fundi 1369 olli vissulega usla og uppnámi og fyrir vikið varð engin umræða um vantrauststillögu A listans á hendur oddvita enda fól bókunin í sér ásakanir um alvarlegt ofbeldi gagnvart kjörnum fulltrúum af hálfu baklands A lista. Nú hefur komið í ljós að þessar ásakanir voru rangar og marklausar – en þjónuðu kannski ákveðnum tilgangi í erfiðri stöðu fulltrúa T lista.

Ég get ekki tekið undir að ómögulegt sé að setja sig í spor annarra eða skilja aðstöðu annarra, flest búum við yfir ákveðinni samkennd sem hjálpar okkur með það. Við eigum að geta gert þá kröfu til kjörinna fulltrúa að þeir haldi sig við staðareyndir og það sem er satt og rétt.

Óljóst er hvaða röngu ásökunum T listinn hefur setið undir og væri áhugavert að fá nánari skýringar á því. Aðallega hefur mér sýnst að einstaklingar í samfélaginu hafi átt fullt í fangi með að verjast rógburði og röngum ásökunum af hendi oddvita T lista.

Með kærri kveðju,

Andrea K. Jónsdóttir, athafnakona.

DEILA