Gunnar Torfason eigandi Tjaldtanga ehf segir að hrefnuveiðar muni hefjast næsta vor. Tjaldtangi hefur fengið leyfi til þess að veiða allt að 217 hrefnur á ári næstu fimm árin. Hann segir að gert verði út frá Ísafirði á bátnum Halldóri Sigurðssyni ÍS, sem hafi um langt árabil verið notaður til hrefnuveiða áður fyrr.
Gunnar segir Ísafjarðardjúpið vera fullt af hval og þar megi veiða hrefnu. Hann bendir á að lægð hafi verið í rækjuveiðum síðustu tvö árin og vonast til þess að rækjustofninn braggist við hrefnuveiðarnar. Gunnar segir engann vafa á að hvalagengdin hafi áhrif á rækjustofninn.
Tvær aðrar umsóknir voru lagðar um hrefnuveiðar og segist gunnar eiga von á því að þeir aðilar muni fá leyfi til veiða þegar þeir hafi uppfyllt nauðsynlegt skilyrði.
Vinnslan fer fram í Ísafjarðarbæ, bæði á þeim hrefnum sem Tjaldtangi hefur leyfi fyrir og eins veiða þeirra tveggja annarra umsækjenda sem bíða afgreiðslu. „Við þurfum að fjárfesta eitthvað til þess að gera vinnsluna tilbúna og þess vegna er fimm ára tími nauðsynlegur.“
Gunnar Torfason segist hafa fengið mjög jákvæð viðbrögð við leyfisveitingunni. Það verði ekki vandamál að selja afurðirnar. „Veitingastaðir hafa haft samband og vilja kaupa kjöt af okkur. Erlendir ferðamenn vilja borða hrefnukjöt.“
Gunnar benti á að þetta yrði ný atvinnustarfsemi á Vestfjörðum, sjálfbær nýting stofna og verðmætasköpun.