Ísafjarðarbær hlýtur 327 m.kr. styrk til úrbóta á fráveitu

Horft yfir Ísafjörð.

Umhverfisstofnun, ásamt 22 samstarfsaðilum, hefur hlotið um 3,5 milljarða króna styrk frá Evrópusambandinu til að vinna að fjölbreyttum verkefnum til að flýta fyrir og bæta innleiðingu vatnaáætlunar á Íslandi.

Af þessum styrk fær Ísafjarðarbær 327 milljónir til að bæta meðhöndlun fráveituvatns í Pollinum í Skutulsfirði og er Ísafjarðarbær næststærsti styrkþeginn í verkefninu.

Verkefninu er ætlað að flýta fyrir og bæta innleiðingu vatnaáætlunar á Íslandi og verður unnið á næstu sex árum.

Meðal markmiða er að:

  • Auka þekkingu á notkun, eiginleikum og ástandi vatns á Íslandi
  • Tryggja fumlausa og samhæfða stjórnsýslu þegar kemur að vatnamálum
  • Bæta vatnsgæði, til dæmis með úrbótum í fráveitu og hreinsun á fráveituvatni
  • Fræða almenning og hagaðila um mikilvægi vatns

Sem fyrr segir snýr verkefnið í Ísafjarðarbæ að því að bæta meðhöndlun fráveituvatns í Pollinum í Skutulsfirði.

Ráðist verður í úrbætur á fráveitukerfi Ísafjarðar til að bæta vatnsgæði Pollsins en um 60% af fráveituvatni á Ísafirði, skólp frá um 1.800 íbúum, fer í Pollinn.

  

DEILA