Ísafjarðarbær: minningarorð um Villa Valla

Villi Valli og Birgir Gunnarsson. Myndin tekin í mai 2020. Mynd: isafjordur.is

Á fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar í síðustu viku var heiðursborgara Ísafjarðarbæjar, Vilbergs Valdal Vilbergssonar minnst, en hann lést þann 6. nóvember sl. og verður borinn til grafar laugardaginn 14. desember.

Það var Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, forseti bæjarstjórnar sem flutti minningarorðin:

„Villi Valli fæddist á Flateyri árið 1930 og starfaði sem rakari á Ísafirði í yfir sextíu ár. Umsvif hans í tónlistarlífinu náðu yfir enn lengra tímabil, en strax á barnsaldri var ljóst að Villi Valli bjó yfir óvenjulegum tónlistarhæfileikum. Aðalhljóðfæri Villa var harmonikka en hann lærði einnig á saxófón. Í gegnum tíðina stofnaði og lék Villi Valli í fjölmörgum hljómsveitum auk þess sem hann stjórnaði Lúðrasveit Ísafjarðar um tíma og var virkur félagi í sveitinni um áratugaskeið. Þrátt fyrir að listsköpun hans hafi aðallega verið á tónlistarsviðinu var Villi Valli einnig iðinn myndlistarmaður.

Villi Valli var útnefndur bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar árið 2001 og heiðursborgari Ísafjarðarbæjar árið 2018.

Fyrir hönd bæjarstjórnar vil ég votta fjölskyldu og vinum Villa Valla dýpstu samúð og bið bæjarstjórn um að rísa úr sætum og heiðra minningu Villa Valla með andartaks þögn.“

DEILA