Aðventutónleikar á Þingeyri, Ísafirði og í Bolungavík

Kórarnir á sameiginlegri æfingu á dögunum. mynd: aðsend.

Kvennakór Ísafjarðar og Karlakórinn Ernir munu sameina krafta sína á tvennum tónleikum nú á aðventunni. Fyrri tónleikarnir verða í félagsheimilinu á Þingeyri á morgun, þriðjudaginn 10. desember kl. 20 og þeir síðari í Ísafjarðarkirkju á miðvikudaginn þann 11. desember kl. 20.

Á efnisskránni eru jóla- og aðventulög af fjölbreyttu tagi og munu kórarnir ýmist flytja þau saman eða hvor í sínu lagi. Stjórnendur eru þau Rúna Esradóttir og Jóngunnar Biering Margeirsson, en undirleikarar eru Judy Tobin og Gylfi Ólafsson. Aðgangseyrir er kr. 3.500.

Þessu til viðbótar mun karlakórinn koma fram einn síns liðs í félagsheimilinu í Bolungarvík fimmtudaginn 12. desember kl. 20 og er aðgangur að þeim tónleikum ókeypis. Þá mun kvennakórinn koma fram á jólatónleikum sem söngkonan Guðrún Árný stendur fyrir í Edinborgarhúsinu miðvikudaginn 18. desember. 

DEILA