Íslandssaga 25 ára – ný vinnslulína

Óðinn Gestsson og Guðni A. Einarsson.

Fiskvinnslan Íslandssaga ehf á Suðureyri fagnaði 25 ára afmæli í gær. Af því tilefni var opið hús og gestum boðið í sýnisferð um húsakynnin og greint frá næstu skrefum í uppbyggingu fyrirtækisins.

Að sögn Óðins Gestssonar framkvæmdastjóra var stöðugur straumur frá því um kl níu um morguninn fram á miðjan dag. Nemendur grunnskólans á Suðureyri komu snemma og voru meðal fyrstu gesta. Þegar Bæjarins besta var á ferðinni eftir hádegið mátti sjá m.a. Sigríði Júlíu Brynleifsdóttur, verðandi bæjarstjóra og Steinþór Kristjánsson en þau eru einmitt búsett á Suðureyri, Gylfa Ólafsson formann bæjarráðs Ísafjarðarbæjar og Lilju Rafney Magnúsdóttur nýkjörinn alþingismann, en hún er einnig heimamaður. þá var fjöldi frá Ísafirði og Önundarfirði.

Jón Arnar Gestsson, gæðastjóri fór yfir breytingarnar sem eru framundan. Keypt hefur verið Marel vinnslulína frá Stakkavík í Grindavík og verður hún sett upp um jólin. Um 20. desember verður allt tekið úr vinnslusalnum og þegar starfsfólk kemur til vinnsu 6. janúar næstkomandi verður nýja línan komin upp og tilbúin. Nýja línan bætir nýtinguna töluvert og eykur afköstin um 30%. Kostnaður er áætlaður verða um 250 m.kr. og segir Jón Arnar að auknar tekjur af bættri nýtingu muni greiða kostnaðinn upp á rúmlega 2 árum. Framleiðsluaukningin muni auk þess gera fyrirtækinu kleyft að vinna meira af þeim afla sem það hefur yfir að ráða og þarf því að senda frá sér minna en verið hefur.

Á undanförnum tveimur árum hafa flökunarvélar , roðflettvélar og aðbúnaður í móttöku og kælum verið endurnýjaður.

Ingólfur Þorleifsson, yfirvélstjóri leiddi svo gesti um fyrirtækið og sagði frá endurbótum og vinnslu meðal annars roðtöku á stórum þorski fyrir Kerecis.

Stærsti eigandinn er Norðureyri ehf á Suðueyri með 73%. Aðrir eigendur eru Flugaldan ehf sem á 8% og Hvetjandi 19%. Fyrirtækið hefur aðgang að tveimur bátum með um 1.600 tonna kvóta. Tekjur félagsin á síðasta ári voru um 2 milljarðar króna og hagnaður var um 56 m.kr. Bókfært eigið fé um síðustu áramót var 126 m.kr.

Framkvæmdastjóri er Óðinn Gestsson og stjórnarformaður Guðni A. Einarsson.

Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs og Sævar Ríkharðsson, útibússtjóri Landsbanka Íslands heimsóttu Íslandssögu.

Ingólfur Þorleifsson og Sigríður Júlía Brynleifsdóttir.

Starfsmenn Íslandssögu tóku á móti gestum. Hér má sjá Þorgerði Karlsdóttur og Jon Arnar Gestsson.

Starfsfólkið í vinnslusalnum lét ekki gesti trufla sig við vinnuna.

Steinþór Kristjánsson og Ingólfur Þorleifsson í vinnslusalnum.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

DEILA