Út er komin bókin Horfin býli og hulddar vættir í Snæfjalla- og Grunnavíkurhreppum hinum fornu. Höfundur er Ólafur J. Engibertsson.
Um er að ræða 2. útgáfu bókarinnar, aukna og endurbætta. Snjáfjallasetur gaf út 1. útgáfuna 2003, en sú bók er löngu uppseld.
Í Snæfjallahreppi og Grunnavíkurhreppi urðu mikil umskipti á 20. öldinni. Um aldamótin 1900 var mannlíf í miklum blóma á þessu svæði og íbúafjöldinn umtalsverður á landsmælikvarða. Síðasti bóndinn flutti í burtu 1995. Hér er að finna frásagnir sem þræða hina horfnu byggð, allt frá landnámi til síðustu ábúenda. Fjöldi mynda prýðir bókina.
Árið 1703 voru 8 býli í byggð á Snæfjallaströnd með samtals 147 íbúum, þar af 5 ómögum. 1801 voru býlin jafnmörg, en íbúum hafði fækkað niður í 130. Í flestum tilvikum var tví- eða þríbýli og á einum stað, Unaðsdal, var fjórbýli, svo bæirnir voru í reynd 20. Íbúafjöldinn á Snæfjallaströnd fór eftir það ört hækkandi og voru þar yfir 300 manns um aldamótin 1900, þegar árabátaútgerð var í hvað mestum blóma. Árið 1910 var íbúafjöldinn hinsvegar kominn niður í 223 og um 1930 var 21 bær í byggð í Snæfjallahreppi með um 150 íbúa. Á þessum árum og fram eftir 4. áratugnum fór fólki svo ört fækkandi og fjölskyldur fluttu í burtu, einkum af ytri Ströndinni. Gamlar kostajarðir fóru þá í fyrsta sinn í eyði og í ritinu er lögð áhersla á að bregða ljósi á hvernig umhorfs var um og eftir 1930 þegar hinar miklu umbreytingar urðu og ásýnd Strandarinnar breyttist. Byggt er á upplýsingum í bókinni Undir Snjáfjöllum eftir Engilbert S. Ingvarsson sem Snjáfjallasetur gaf út 2007.
Á ytri Ströndinni í landi Sandeyrar og Snæfjallastaðar var talsverð þurrabúðabyggð um aldamótin 1900. Þegar mest var bjuggu þar fjórtán fjölskyldur í litlum kotum með lítið undirlendi, en gjöful fiskimið skammt undan landi. Kristján Jónsson frá Garðsstöðum ritaði ítarlega um búendur og bátaformenn þar árið 1901 í Ársrit Sögufélags Ísfirðinga. Í Grunnavík var uppgangur í útgerð eftir aldamótin og fram yfir 1950.
Þorvaldur Thoroddsen segir í Ferðabók sinni rétt fyrir aldamótin 1900 að kotahverfi sé niður við sjóinn í Grunnavík. Um 80 manns eru þá taldir eiga þar heimili. Jóhann Hjaltason skrifar 1949 að þarna sé snotur byggð og að bæirnir standi þar þétt. Byggðin var þá kölluð Í Víkinni og voru íbúarnir enn um 70. Ljóst er að þarna var vísir að þéttbýliskjarna sem hvarf nánast eins og dögg fyrir sólu á rúmum áratug. Byggð hélst áfram í blóma á innri Snæfjallaströnd, þó býlum fækkaði. Með samgöngubótum og Inn-Djúpsáætlun var reynt að sporna gegn því að byggðin legðist í eyði, líkt og raunin varð á með Grunnavík haustið 1962. Þróunin varð þó ekki umflúin og síðasti bóndinn hvarf af Ströndinni haustið 1995. Síðan hefur einungis verið fólk þar á sumrum, líkt og í Grunnavík og á Höfðaströnd, utan ábúenda í Æðey sem dvelja þar meira og minna allt árið.
Myndir í bókinni eru m.a. eftir Hjálmar R. Bárðarson, Mats Wibe Lund, Ingva Stígsson og Halldór Jónsson. Margar myndir koma úr einkasöfnum. Einnig eru margar brunavirðingateikningar frá 1934 í bókinni, sem eru í mörgum tilvikum einu heimildirnar sem til eru um útlit bæjanna.
Snjáfjallasetur er með upplýsingar um hvern bæ á vef sínum: https://snjafjallasetur.is/byli/index.html
Bókin fæst hjá útgefendum, Sögumiðlun og Snjáfjallasetri.
Bókin er einnig til sölu í völdum verslunum. Pantanir óskast á netfangið olafur@sogumidlun.is