Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur birt úthlutun á 899 milljónum króna úr Landsáætlun um uppbyggingu innviða á þessu ári til uppbyggingar innviða. Gert er ráð fyrir um 2,7 milljarða króna framlagi til áætlunarinnar á þremur árum 2024 – 2026.
Á áætlun áranna 2024-2026 eru 102 verkefni á skilgreindum stöðum, svæðum og leiðum. Þar af eru 62 ný verkefni en verkefni á áætluninni lúta m.a. að göngustígum, bættum merkingum og umbótum á bílastæðamálum. Af einstökum stöðum má nefna sem dæmi Geysi í Haukadal, þar sem umfangsmestu framkvæmdir á vegum landsáætlunar fara nú fram.
Á síðasta ári voru settar 29 m.kr. í bráðaaðgerðir, sjö verkefni. Eitt þeirra var á Vestfjörðum, Hornstrandir/Hornvík. Endurbætur göngustígs, Tröllakambur 13,3 m.kr. Á þessu ári voru settar 23 m.kr. í 11 verkefni sem skilgreindar voru sem bráðaaðgerðir. Þar af voru þrjú á Vestfjörðum. Á Látrabjargi , brunnar – bráðaaðgerð, viðgerð á rotþró og siturlögn 1,1 m.kr. og tvö verkefni á Dynjanda í Arnarfirði. Lagfæring á staurum og köðlum og lagfæring á gönguleið, samtals 1,8 m.kr.
Átta verkefni á Vestfjörðum
Verkefnin átta á Vestfjörðum sem eru á Landsáætluninni eru sýnd á töflunni að neðan. Samtals er kostnaðu um 102 m.kr. Látrabjarg er langstærsta verkefnið. Þar á að ganga frá bílastæðum og er áætlað að það kosti um 50 m.kr.
Samtals er ætlað að vera um 119 m.kr. til verkefna á Vestfjörðum af heildarfjárhæðinni 2,7 milljörðum króna samkvæmt því sem fyrir liggur í skjalinu. Er það um 4,4% af fjárhæðinni.