Birt hefur verið úthlutun listamannalauna fyrir 2025. Úthlutað var 1720 mánaðarlaunum úr átta launasjóðum: hönnuða, myndlistarmanna, rithöfunda, sviðslistafólks, tónlistarflytjenda, tónskálda, kvikmyndahöfunda og Vegsemd fyrir listamenn 67 ára og eldri.
Fjöldi umsækjenda var 1.339 þar af 1.223 einstaklingar og 116 sviðslistahópar. Sótt var um 11.988 mánuði. Listamannalaun árið 2025 verða 560.000 kr. á mánuði.
Úthlutun fær 251 listamaður. Við hana bætist úthlutun til þátttakenda í sviðslistahópum úr launasjóði sviðslistafólks sem tengist Sviðslistasjóði. Úthlutun úr Sviðslistasjóði verður tilkynnt á nýju ári.
Listamannalaun sem úthlutað var fyrir árið 2024 eru 538.000 kr. á mánuði. Um verktakagreiðslur er að ræða.
Aðeins tveir Vestfirðingar fengu listamannalaun að þessu sinni. Eiríkur Örn Norðdahl fékk 12 mánaða laun og Elfar Logi Hannesson fékk tveggja mánaða laun, báðir úr launasjóði rithöfunda.
Samtals fá þeir 14 mánaða laun sem svarar til 0,8% af fjárhæðinni sem til úthlutunar var.
Birta Ósmann fékk þriggja mánað laun
Uppfært kl 15:15. Birta Ósmann Þórhallsdóttir, Patreksfirði fékk þriggja mánaða laun úr launasjóði rithöfunda. Hún á og rekur bókaútgáfuna Skriðu á Patreksfirði og er bæjarlistamaður í nýja sameinaða sveitarfélaginu Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppi.
Birta Ósmann til vinstri við afhendingu verðlaunanna í sumar sem bæjarlistamaður. Til hægri Valgerður Þorsteinsdóttir menningar- og ferðamálafulltrúi Vesturbyggðar.
Uppfært 9.12. kl 12:26. Gunnar Jónsson frá Ísafirði fékk 6 mánuði úr myndlistarsjóði Listamannalauna fyrir 2025.
Gunnar Jónsson.