Takk fyrir stuðninginn og samvinnuna

Kæru kjósendur og stuðningsmenn,

Við viljum senda ykkur innilegar þakkir fyrir ómetanlegan stuðning í aðdraganda kosninganna og það traust sem þið sýnduð okkur á kjördag. Markmið okkar var að verða aftur stærsti flokkurinn í kjördæminu og tryggja Óla leiðtogasætið. Þökk sé samhentu átaki okkar allra tókst það – við erum á ný stærsti flokkurinn í Norðvesturkjördæmi og Ólafur Adolfsson leiðir kjördæmið sem fyrsti þingmaður þess.

Þrátt fyrir að við höfum ekki náð að tryggja tvö þingsæti í þetta sinn getum við verið stolt af árangri okkar. Bjarki, sem var í öðru sæti, er sá frambjóðandi sem hefur hæsta hlutfall kjósenda á bakvið sig í sínu kjördæmi á landsvísu sem ekki komist inn og verður öflugur varaþingmaður næstu árin.

Undanfarnar vikur hafa verið ótrúlega gefandi. Við fórum um allt kjördæmið, heimsóttum yfir 300 staði – fyrirtæki, stofnanir og heimili – og héldum tæplega 100 fundi með frambjóðendum. Hvarvetna var okkur tekið opnum örmum, oft með stuttum fyrirvara, og skipulagðar voru veislur eða kraftmiklir fundir sem sýndu samhuginn og styrkinn í okkar fólki.

Við viljum þakka öllum sem tóku þátt í þessari vegferð – þeim sem lögðu sitt af mörkum í skipulagningu, komu á fundi, tóku þátt í samtölum og lögðu hart að sér fyrir flokkinn. Við erum þakklát fyrir þann dugnað og þann samhug sem einkenndi þessa baráttu. Þið gerðuð þetta allt mögulegt.

Framundan eru spennandi tímar og verkefnin eru mörg. Ólafur verður öflugur leiðtogi kjördæmisins á þessu kjörtímabili, og við munum öll standa saman í því að styðja hann og áframhaldandi uppbyggingu flokksins.

Að lokum viljum við þakka ykkur fyrir hlýjar móttökur, kraftinn sem þið lögðuð í baráttuna og þann samhug sem gerði okkur kleift að ná þessum árangri. Nú tökum við næsta skref – saman – og vinnum að hag kjördæmisins alls.

Ólafur Adolfsson, Bjarki Þorsteinsson, Auður Kjartansdóttir, Dagný Finnbjörnsdóttir og Kristófer Már Maronsson

DEILA