Lilja Rafney hreppti jöfnunarsætið

Lilja Rafney Magnúsdóttir, alþm.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, sem skipaði 2. sætið á lista Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi fékk úthlutað jöfnunarsæti kjördæmisins og var því kjörin til setu á Alþingi í kosningunum á laugardaginn. Lilja Rafney sneri því aftur til setu á Alþingi þremur árum eftir að hún lét af þingmennsku 2021. Flokkur fólksins fékk þrjú jöfnunarsæti af þeim níu sem kosningalögin mæla fyrir um. Er þeim úthlutað til flokkanna til þess að fjöldi þingsæta verði í samræmi við atkvæðafjölda viðkomandi flokks á landsvísu. Flokkur fólksins fékk samtals sjö kjördæmaþingsæti í kjördæmunum sex en landsfylgið var meira og vantaði þrjú þingsæti þar upp á.

Lilja Rafney var í 2. sæti listans sem fékk 16,7% atkvæða í Norðvesturkjördæmi og telst því helmingur þess eða 8,36% atkvæða á bak við hana. Frambjóðandi í 3. sæti telst vera með 1/3 af atkvæðahlutfalli listans o.sfrv. Lilja Rafney var hæst þeirra frambjóðenda Flokks fólksins á landinu sem ekki höfðu þegar hlotið þingsæti. Næst kom frambjóðandinn í 2. sæti í Norðausturkjördæmi með 7,14%.

Fyrst var gerður listi yfir flokkana og hve mörg jöfnunarþingsæti hver eigi að fá og í hvaða röð. Þetta er gert þegar fyrir liggur hverjir fá kosningu í kjördæmasætin. Þar kom í ljós að Framsóknarflokkurinn átti fyrsta jöfnunarsætið, síðan Flokkur fólksins sæti nr 2, þá Framsókn það þriðja og aftur Flokkur fólksins og þannig koll af kolli, t.d. fékk Sjálfstæðisflokkurinn fimmta jöfnunarsætið.

Fyrsta jöfnunarsætið fór því til þess framsóknarmanns sem hafði hæsta atkvæðahlutfallið á bak við sig og það reyndist vera Þórarinn Ingi Pétursson í Norðausturkjördæmi. Var honum úthlutað sætinu. Þá var lokið úthlutun í Norðausturkjördæmi þar sem aðeins eitt jöfnunarsæti er í hverju landsbyggðarkjördæmanna.

Flokkur fólksins fékk sæti nr. 2 og það fór til þess frambjóðenda Flokks fólksins á landinu sem var með hæsta atkvæðahlutfall, sem var Lilja Rafney Magnúsdóttir í Norðvesturkjördæmi. Þar með var lokið úthlutun jöfnunarsæta í kjördæminu, en það gerði það að verkum að framsóknarmaður nr 2 sem fékk jöfnunarsæti nr 3 átti að vera Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir í Norðvesturkjördæmi gat ekki fengið þingsæti. Var því hlaupið yfir hana í næsta framsóknarmann á listanum sem var Sigurður Ingi Jóhannsson í Suðurkjördæmi.

Frambjóðendur í Norðvesturkjördæmi voru efstir á lista yfir jöfnunarþingmenn hjá fimm flokkum. Hæstur þeirra var Björn Bjarni Þorsteinsson (D) með 8,99% atkvæða á bak við sig. En ógæfa hans var að Sjálfstæðisflokkurinn átti fimmta jöfnunarþingmann af níu og þegar kom að honum var þegar búið að úthluta eina jöfnunarþingsætinu í Norðvesturkjördæmi og því leiðin lokuð.

DEILA