Hestamannafélagið Hending á Ísafirði hefur ritað bréf til bæjarstjónar Ísafjarðarbæjar og spurst er fyrir um efndir á samkomulagi um uppbyggingu í Engidal á keppnishöll og reiðvelli. Vísað er til þess að samkomulag hafi verið undirritað 19. júní 2017 og gert var ráð fyrir að framkvæmdum lyki á 6 – 7 árum. Í bréfinu er spurt hvernig Ísafjarðarbær hyggist efna samkomulagið.
Rakin er forsaga málsins. Vegna jarðgangagerðar til Bolungavíkur þurfti Vegagerðin árið 2008 að taka svæði Hendingar í Hnífsdal og greiddi bætur fyrir 20 m.kr. til Ísafjarðarbæjar. Þær runnu svo til Hendingar til byggingar á reiðskemmu í Engidal. Var stofnað sérfélag um það og lagði Hending til 31 m.kr. með bótunum en Ísafjarðarbær 30 m.kr.
Annar áfangi framkvæmda samkvæmt samkomulaginu eru framkvæmdir við útisvæði, keppnisvallar, frágang svæðis og lýsing þess og var gert ráð fyrir 6-7 ára framkvæmdatíma. Kostnaður var áætlaður 61 m.kr. m.v. verðlag í februar 2018 sem skyldi verðbætt. Innifalið er 17 m.kr. vinnuframlag Hendingar. Undirritun samnings um þessar framkvæmdir hefur ekki farið fram en í bréfinu segir að öll gögn hafi verið tilbúin í janúar 2018 en undirritun þá frestað til maí og þá frestað framyfir bæjarstjórnarkosningar. Síðan hafi bæjarstjórn ekki tekið málið fyrir aftur.
Í minnisblaði sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs sem lagt var fyrir bæjarráð í síðustu viku segir að seinni samningurinn , sem nefndur er uppbyggingarsamningur , hafi ekki verið samþykktur í bæjarstjórn og að hún hafi ákveðið að allir uppbyggingarsamningar eigi að fara sömu leið, þ.e. í gegnum Héraðssambands Vestfirðinga og að ekki hafi borist umsókn frá HSV vegna reiðvallar fyrir Hendingu og því sé ekki hægt að taka málið til afgreiðslu.
Bæjarráðið afgreiddi erindið með bókun þar sem segir: „Ísafjarðarbær telur sig uppfylla samning við Hendingu frá árinu 2017 og vísar áframhaldandi uppbyggingu á reiðsvæði í Engidal til meðferðar samkvæmt uppbyggingasamningum íþróttamannvirkja, með vísan til 5. gr samningsins.
Hendingu er bent á að uppbyggingasamningar verða auglýstir til umsókna í desember.“