Tíu ungir Íslendingar eru tilnefndir til verðlaunanna Framúrskarandi ungir Íslendingar. Þau eru fyrst og fremst hvatningarverðlaun til ungs fólks sem eru að takast á við krefjandi og athyglisverð verkefni á sínu sviði og hafa verðlaunin verið haldin óslitið síðan árið 2002.
Það eru samtökin JCI Ísland sem standa fyrir verðlaunaveitingunni.
Tilnefningar til framúrskarandi ungra Íslendinga voru mun fleiri en þær hafa verið undanfarið og hlutu í kringum 200 tilnefningar. Það var vandasamt og erfitt verkefni að vinna úr. Það er því ljóst að við erum rík af ungu fólki sem er að gera vel á sínu sviði segir í kynningu JCI.
Dómnefndin hittist í síðustu viku og valdi topp tíu hópinn og sigurvegara sem verður tilkynntur á verðlaunaafhendingunni þann 4. desember nk.
Dómnefndin í ár var skipuð af Elizu Reid rithöfundi og fyrrum forsetafrú. Freyju Steingrímsdóttur framkvæmdastjóra Blaðamannafélags Íslands, Anítu Sóleyju Scheving Þórðardóttur, framúrskarandi ungur Íslendingur 2023 og nemi, Kjartan Hansson senator í JCI og hagfræðingur hjá Seðlabanka Íslands og Alma Dögg Sigurvinsdottir Landsforseti JCI Íslands 2024.
Meðal þeirra tíu sem hlutu tilnefningu í ár er Ísfirðingurinn Tinna Hrund Hlynsdóttir. Fær tilnefningu störf á sviði mannúðar- eða sjálfboðaliðamála. Um hana segir í kynningu á þeim sem tilnefnd eru:
„Tinna Hrund er frá Ísafirði og hefur hún vakið athygli fyrir mikið og óeigingjarnt starf í þágu síns samfélags. Hún hefur tekið að sér ýmsar ábyrgðarstöður samfélagsins og staðið sig vel. Tinna stofnaði félagið Stöndum saman Vestfirðir árið 2016 ásamt Hólmfríði Bóasdóttur og Steinunni Guðnýju Einarsdóttur og gerðist Tinna formaður félagsins. Markmið félagsins er að standa saman að því að bæta samfélagið og hafa þær verið ötular í því að safna fyrir ýmsum tækjum og tólum sem hefur vantað í heilbrigðiskerfið í litlum bæjum á Vestfjörðum.“
Miðvikudaginn 4. desember fer formleg verðlaunaafhending fram, þar sem Halla Tómasdóttir, forseti Íslands mun afhenda Topp tíu hópnum viðurkenningu og verður vinningshafi úr hópnum kynntur sem hlýtur titilinn Framúrskarandi ungur Íslendingur ársins 2024.