Cruise Iceland, hagsmunasamtök aðila sem taka á móti skemmtiferðaskipum, hafnir, sveitarfélög og aðildarfyrirtæki, sendu þremur ráðherrum í dag bréf varðandi samþykt laga um nýtt innviðagjald á farþega skemmtiferðaskipa, 2.500 kr. á farþega fyrir hvern dag og mómæla harðlega fyrirvaralausri skattlagningunni. Nýja gjaldið á að koma til innheimtu frá og með næstu áramótum.
Ráðherrarnir sem fengu bréfið eru fjármála- og efnahagsráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson, menningar- og viðskiptaráðherra Lilja Alfreðsdóttir og forsætisráðherra Bjarni Benediktsson.
Í bréfinu segir að allt bendi til þess að starfsstjórnin ætli sér að svíkja fyrirheit um að gjaldið yrði aðeins lagt á óseldar ferðir:
„Allt bendir til að starfsstjórnin ætli að leggja innviðagjaldið á með 6 vikna fyrirvara á ferðir sem þegar hafa verið seldar og því um afturvirka gjaldtöku að ræða sem að auki er lög á án tillits til jafnræðis þar sem einungis ferðamenn sem koma með skemmtiferðaskipum greiða gjaldið. Stjórnsýslan hefur verið fordæmd harðlega þar sem fjármálaráðuneytið hafði lofað að gjaldið myndi eingöngu verða lagt á ferðir sem seldar eru eftir 1. janúar 2025. Þetta kom einnig fram í ræðu Njáls Trausta Friðbertssonar, formanns
fjárlaganefndar, þann 15. nóvember sl1. Ekki er að sjá annað af samþykktum lögum þingsins en að
starfsstjórnin ætli sér að svíkja þetta og ekki er það til marks um aukinn fyrirsjáanleika eins og
ferðamálaráðherra boðar í aðsendri grein í dag.“
Þá segir að komið hafi verið aftan að Cruise Iceland, AECO, CLIA og Cruise Europe í þessu máli og er ljóst að þessi slælega stjórnsýsla mun hafa víðtæk og mjög neikvæð áhrif, sérstaklega á landsbyggðinni en einnig fyrir geirann í heild sinni og þá ekki aðeins á Íslandi.
Nefnt er sem dæmi að að skip eins og Norwegian Prima sem heimsækir Ísland átta sinnum yfir árið þurfi að reiða af hendi 55 milljónir ofan á önnur gjöld fyrir hverja heimsókn sem samsvarar 440 milljónir fyrir
átta komur eins skips til Íslands, án þess að geta innheimt gjaldið af farþegum. „Þetta er yfirgengileg
viðbótargjaldtaka þegar haft er í huga að hún er afturvirk. Fjöldi skipafélaga hafa tilkynnt aðildarfélögum Cruise Iceland að afturvirk gjaldtakan setji félögin í ómögulega stöðu fyrir næsta ár, nauðsynlegt verði að aflýsa ferðum.“
Hilmar Lyngmo, hafnarstjóri á Ísafirði sagði að, ef þetta gerðist svona, myndu tekjur Ísafjarðahafna af skemmtiferðaskipum dragast saman um 90% á næsta ári.