Gefum íslensku séns – Flateyri mánudag og Bolungarvík þriðjudag

Á Bryggjukaffi á Flateyri ætlum við að hittast á mánudag 2.desember klukkan 19:00 og spjalla á íslensku.

Það er mjög ánægjulegt að tilkynna að nú verður prófað að fjölga skiptum í Bolungarvík. Verða viðburðir (hraðíslenska/þriðja rýmið) í hverri viku til jóla eða þrjár næstu vikur. Næsta skipti á sér stað þriðjudaginn 3. desember svo 10.12. og loks 17.12. Alltaf verður byrjað klukkan 18:00.

Við trúum því að möguleikum þurfi að fjölga uns íslenskan verði svo sjálfgefin að ekki þurfi viðburða sem slíkra við, að ekki þurfi verkefnis sem Gefum íslensku séns lengur við.

Alls konar íslenska verður í boð, með hreim og stundum með ekki alveg réttri málfræði. Við viljum stundum spila, stundum nota orðaspjöld, stundum fara í göngutúra, stundum hafa þemu og svo framvegis.

Það er áhugi á að stækka orðaforðann, tala meira, fá sénsa til að nota það sem fólk er búið að læra. Já, nota málið.

Viltu vera með og hjálpa okkur að æfa okkur í að tala, að læra íslensku? Við eigum eftir að koma mynd á hvernig við viljum hafa þetta en við erum ákveðin í að verða betri í íslensku. Þú getur mátað þetta með okkur.

DEILA