Ég hef að starfi að vera sviðsstjóri byggðaþróunar hjá Vestfjarðastofu ses frá stofnun hennar í lok árs 2017. Í því felst að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum og verkefnum sveitarfélaga sem eiga aðild að Fjórðungssambandi Vestfirðinga og fela Vestfjarðastofu að vinna að. Hagsmunamál sveitarfélaga á Vestfjörðum skarast mikið saman með hagsmunum atvinnulífs sérstaklega er varðar samgöngur, orkumál, fjarskiptamál og þjónustu og starfsemi ríkisins á Vestfjörðum. Hagsmunum er sinnt með stefnumótun og áætlangerð og síðan með ályktunum, umsögnum og fundum með Alþingi, ráðuneytum og stofnunum þeirra.
Ég er fæddur á Ísafirði árið 1962, en ólst upp í Hnífsdal í hinum gamla Eyrarhrepp, fyrst niður á sjó við Strandgötuna og svo á Bakkaveginum fram yfir tvítugsaldurinn. Mamma, Fjóla Hannesdóttir var fædd og uppalinn og bjó nær alla sína tíð í Hnífsdal, pabbi Óskar Friðbjarnarson var fæddur og uppalinn í Grunnavík í Jökulfjörðum, en flutti í Hnífsdal um miðjan sjötta áratuginn, þau eru bæði látin. Ég á fjóra bræður og er sá þriðji í röðinni í af þeim fimm manna hópi.
Konan mín Guðrún Hermannsdóttir, er fædd 1964 og uppalinn á Þingeyri, við eigum tvær uppkomnar dætur sem búa í Reykjavík og á Ísafirði.
Áhugamálin eru inni og útvera, innivera tengist lestri bóka, skáldsögur, ævisögur og bækur um náttúru og menningu Íslands. Legg við hlustun á gáfumannapopp en með pönkívafi, abient tónlist og klassískri tónlist af öllu tagi þó barrokkið heilli oftast. Útvera tengist gönguferðum í náttúru Vestfjarða, þar nýt ég þess að eiga hlut í sumarbústað í Grunnavík sem ég nýti mér ár hvert. Miðhálendið heillar einnig og þá sérstaklega eldfjallaslóðir.
Eins og flestir af minni kynslóð þá var eðlilegt að fara vinna á barnsaldri og taka þátt í að bjarga verðmætum. Harðfiskverkun föður míns og hreppsvinnan voru fyrstu störfin. Fleiri sumur í frystihúsinu í Hnífsdal en einnig sumar hjá Úlfari í Hamraborg á Hótel Hamrabæ. Við val á sjávarútvegsfræði sem framhaldsnám, var á þeim tíma krafa um að hafa samhangandi reynslu af sjávarútvegi því vann ég eitt ár eftir stútentspróf, í frystihúsinu í Hnífsdal og tók eina síldarvertíð í Grindavík. Annars var skólagangan í Barnaskólanum í Hnifsdal, Gagnfræðaskóla Ísafjarðar og svo í Menntakólanum á Ísafirði. Síðan lá leiðin til Tromsö í Norgegi, þar sem ég nam sjávarútvegsfræði við Háskólann í Tromsö og útskrifaðist þar 1990 með kandidatspróf. Á þessum námsárum vann ég ýmis störf hér heima og í Noregi, en minnistæðast var sumarvinna hjá Óla Halldórs í Ísfangi þar sem gerð var tilraun með útflutning á ferskum fiski með hraðskreiðri tvíbytnu, auk útflutnings á gámafiski.
Sama ár sem ég útskrifaðist hafði ég ráðið mig sem sviðsstjóra nýrrar skrifstofu Byggðastofnunar á Ísafirði og fluttum því aftur á heimaslóðir. Það sem vakti áhuga minn var að geta unnið að byggða og atvinnuþróun á Vestfjörðum og má segja að það hafi orðið ævistarfið. En þegar skrifstofa Byggðastofnunar var lokað 1997, sótti ég um og var ráðinn sem framkvæmstjóri Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða, var þar til ársins 2007 þegar ég sótti um starf framkvæmdastjóra Fjórðungssambands Vestfirðinga. Með stofnun Vestfjarðastofu voru verkefni Atvinnuþróunarfélags og Fjórðungssambands sameinuð og samið um að starfsmenn þessara aðila yrðu ráðnir til Vestfjarðastofu og tók ég við starfi sviðsstjóra byggðaþróunar.
Þessi rúmu þrjátíu ár í starfi við atvinnu og byggðaþróun hafa verið viðburðarík. Um og eftir árið 1990 er í raun endir á uppgangstímabili í efnahagssögu Vestfjarða eftir hraða uppbyggingu með skutttogaravæðingu. Við tók hátt rúmlega tveggja áratuga neikvæð þróun þar sem íbúum á Vestfjörðum fækkaði um þriðjung vegna áhrifa samdráttar í frumatvinnugreinum og í kjölfar áfalla af völdum snjóflóða. Veikburða innviðir voru síðan til þess fallnir að erfitt var að finna viðspyrnu líkt og sjá mátti í öðrum landshlutum sem höfðu aðgang að betri samgöngum og orkuinnviðum.
Íbúaþróun náði síðan ákveðnu jafnvægi á fyrsta áratug aldarinnar, þó ákveðið bakslag hafi verið í efnahagshruninu, en frá þeim tíma hefur svæðið verið að mestu á uppleið og nú er meginhluti Vestfjarða að upplifa nýtt efnahagsævintýri sem telja verður að standi á traustri fótum en fyrri uppsveiflur. Eins komust nokkur fyrirtæki í gegnum þessa erfiðleika með útsjónarsemi og aðhaldi í fjármálum og njóta nú ávaxtana af því. Við eru einnig loks að sjá eftir áratuga bið, að landshlutinn sé að ná sambærilegri stöðu í innviðamálum, en þar má ekki sofna á verðinum fyrr en búið er að klippa á alla borða.
Ýmislegt var þó reynt til finna ”eitthvað annað” á þessu sviði byggða og atvinnuþróunar. Minna má á starf Vestfjarðanefnda og eflingu stofnana á sviði menntunar, rannsókna og eftirlits. Með góðu samstarfsfólki og samstarfsaðilum í gegnum tíðina hef ég átt kost á að vinna að margvíslegum verkefnum. Hér vill ég nefna frumkvöðlastarf við nýtingu kalkþörungasetlaga í Arnarfirði með stofnun Íslenska kalkþörungafélagsins 2001. Í kalkþörungaverkefninu var lögð áhersla á grunnrannsóknir á lífríki fjarðanna, sem gaf um leið upplýsingar sem nýttust til að kynna firðina sem möguleg svæði fyrir sjókvíaeldi. Þetta var liður í því að vekja áhuga fyrir svæðinu sem nú má segja að hafi verið upphaf þess fiskeldis sem við þekkjum í dag. Á sama grunni var einnig varpað ljósi á mikilvægi skipulags á nýtingu og verndun strandsvæðisins. Með gerð Nýtingaráætlunar Arnarfjarðar sem staðfest var 2012, sýndu vestfirsk sveitarfélög frumkvæði í þeim málum, sem siðar leiddi til lagasetningar og vinnu og samþykktar á Strandsvæðaskipulagi Vestfjarða.
Samstarf stofnana ríkis og sveitarfélaga og efling þeirra bar einnig ýmsan árangur. Stofnun þriggja þróunarsetra á Ísafirði, Hólmavík og Patreksfirði þar sem hefur verið fjölbreytt flóra stofnana, eins hefur verið uppbygging í Bolungarvík. En sífelld vinna er í því að tala fyrir mikilvægi þessara starfsemi í þessum setrum og og tekst ekki alltaf Eins vill ég nefna stofnun Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða er stóð að þróun fjarnáms á háskólastigi sem varð hluti af forsendu fyrir stofnun Háskólaseturs Vestfjarða.
Að lokum ber að nefna eflingu nýsköpunar og menningarumhverfis á Vesfjörðum með stofnun Menningarráðs Vestfjarða og Vaxtarsamnings Vestfjarða. Á þeim grunni hefur Sóknaráætlun Vestfjarða verðið byggð upp og er nú að hefja sitt þriðja fimm ára tímabil. Einnig bind ég miklar væntingar til Svæðisskipulags Vestfjarða sem nú er unnið að. Þar sett að markmiði að skapa sameina sýn sveitarfélaga á Vestfjörðum til ársins 2050 gagnvart uppbyggingu innviða og skapa grundvöll fyrir jafnvægi nýtingar og verndunar vestfirskrar náttúru.