Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur ákveðið að setja af stað átak í uppsetningu smávirkjana en þar er átt við vatnsaflsvirkjanir með uppsett afl undir 10 MW.
Orkustofnun hefur kortlagt rúmlega 2.500 staði sem eru náttúrulegir og landfræðilegir kostir fyrir smærri vatnsaflsvirkjanir.
Starfshópur um bætta orkunýtni sem ráðherra skipaði vorið 2023 lagði til í apríl sl. að stefna ætti að því með markvissum aðgerðum að allt að 1.200 GWst á ári af viðbótarorku komi frá smærri vatnsaflsvirkjunum fyrir árið 2040.
Umhverfis- og orkustofnun verður falið að halda utan um átakið, þar sem kanna á í samstarfi við landeigendur og aðra rétthafa vatnsréttinda, smávirkjanakosti sem hafa verið kortlagðir nú þegar og leita leiða til þess að koma framkvæmdum af stað.