Allir þingmenn Flokks fólksins fluttu haustið 2022 tillögu á Alþingi um sjálfstæðar fiskeldisrannsóknir á vegum Háskólaseturs Vestfjarða. Í greinargerð með tillögunni segir að fiskeldi sé í dag ein helsta atvinnugrein Vestfjarða, atvinnugreinin hafi vaxið hratt, skapað fjölda afleiddra starfa og eigi mikinn þátt í þeirri endurreisn sem hafi orðið á Vestfjörðum og mikið svigrúm sé fyrir frekari uppbyggingu samkvæmt áhættumati Hafrannsóknarstofnunar.
Eyjólfur Ármannsson, alþm. vísar til þessa þingmáls í svari sínu um afstöðu flokksins til laxeldis í sjó á Vestfjörðum:
„Flokkur fólksins vill traustan lagaramma um sjókvíaeldi og aukið eftirlit. Sveitarfélög fái aðstöðugjöld af kvíum, og greitt verði fyrir afnot af fjörðum. Efla þarf þekkingu innan greinarinnar. Þetta kemur fram í kjördæmabæklingi flokksins um áherslumál fyrir Norðvesturkjördæmi.
Það verður hlutverk næsta kjörtímabils að setja greininni trausta lagaramma sem felur í sér aukið eftirlit, þar sem stjórnarmeirihlutanum tókst ekki fá samþykkt frumvarp til laga um lagareldi á kjörtímabilinu sem er að ljúka.
Gríðarlega mikilvægt er að efla þekkingu á greininni mínu mat og var Flokkur fólksins með þingmál á kjörtímabilinu, sem ég mælti fyrir og laut að því að koma á fót stöðu fiskeldisfræðings við Háskólasetur Vestfjarða. Það myndi styrkja mjög fræðilega þekkingu og efla háskólasetrið, sem er mikilvægt fyrir Vestfirði.
Í greinargerð með tillögunni til þingsályktunar sem er fróðleg kemur meðal annars fram, að mikilvægt sé að byggja upp fræðilega þekkingu á fiskeldi á Íslandi og fræðasamfélagið á Vestfjörðum, efla rannsóknir á fiskeldi og tryggja að sú þekking og reynsla sem myndast á svæðinu verði varðveitt og henni miðlað áfram. Einnig sé mikilvægt að rannsaka umhverfisáhrif fiskeldis og stuðla að því að fiskeldi fari fram með vistvænum hætti. Því sé lagt til að koma á fót stöðu fiskeldisfræðings, sem starfi við sjálfstæðar rannsóknir og kennslu. Hans hlutverk væri einnig að taka þátt í og stuðla að faglegri umræðu um fiskeldi á Íslandi.“