Afli til línuívilnunar hefur verið skertur umtalsvert á undanförnum árum.
Með útgáfu reglugerðar fyrir yfirstandandi fiskveiðiár eru aðeins ætluð 800 tonn af þorski til línuívilnunar, rúmum þriðjungi minna en á síðasta fiskveiðiári.
Ákvörðunin er strax byrjuð að ógna útgerð þeirra báta sem reiða sig á ívilnun að því er kemur fram í frétt Landssambands smábátaeigenda (LS). Lokað var á ívilnun í þorski 21. nóvember sl.
Nýtt tímabil hefst 1. desember nk. og stendur út febrúar. Á því tímabili eru ætluð 350 tonn af þorski.
Línuívilnun var komið á fyrir tilstuðlan LS árið 2003. Upphaflega voru 300 bátar sem nýttu sér ívilninunina sem bundin við dagróðrabáta. Með samþjöppun kvóta og tilheyrandi fækkun báta hafa heimildir verið skertar.
LS hefur átt á brattan að sækja við að berjast gegn skerðingum á heimildum til línuívilnunar. Aðeins 800 tonn af þorski nú eru skilaboð um að fara eigi eftir tillögu „Auðlindarinnar okkar“ að afnema línuívilnun og því verkefni skuli lokið árið 2028.
LS mótmælti tillögu nefndarinnar harðlega og lagði til að línuívilnun yrði efld með auknum aflaheimildum.
Það er skýlaus krafa LS að nægar veiðiheimildir verði til línuívilnunar svo ekki þurfi að koma til stöðvunar.