Vegurinn við Eyri í Ísafirði innantil við Bjarnastaði fór í sundur í vatnavöxtunum í síðustu viku. Ræsi sem var undir veginum hafði ekki undan vatnsmagninu og grófst hann í sundur. Vegagerðarflokkur frá Ísafirði vann hörðum höndum um helgina að viðgerð og sagði Sigurður Guðmundur Sverrisson yfirverkstjóri í gær að búið væri að tengja nýtt ræsi. Það var allmikið verk þar sem 9 metrar voru frá yfirborði vegarins niður á ræsið. Stórt skarð hafði rofnað í veginn í gilinu sem þarna er. Var fyrst til bráðabirgða gerð hjáleið til þess að opna veginn.
Umferð var svo hleypt á endurgerðan veginn á sunnudagskvöldið og unnið var í gær að því að fylla betur upp í vegstæðið. Það verður hins vegar ekki klætt bundnu slitlagi fyrr en næsta sumar.
Viðgerðarflokkurinn mun nú taka til við næsta verkefni sem er varanleg viðgerð a Þverá á Langadalsströnd, en þar tók veginn einnig í sundur. Búið er að vinna í haginn og hefur grjóti og öðru efni verið keyrt að ánni. Vonast er til þess að það verk hefjist á morgun, miðvikudag.
Svona var umhorfs á laugardaginn við Eyri í Ísafirði.
Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.