Arna Lára Jónsdóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi var innt eftir afstöðu Samfylkingarinnar til fiskeldis í sjó og til virkjana á Vestfjörðum. Svar hennar fer hér á eftir:
„Samfylkingin hefur djúpan skilning og hefur sannfæringu fyrir því að kraftmikil verðmætasköpun fari best með sterkri velferð. Við þurfum öflugu atvinnuvegi og sterka innviði til að standa undir grunnkerfunum okkar og velsæld.
Fiskeldi er risastór atvinnugrein sem veltir tugum milljarða og hefur haft mikil áhrif á byggðir á Vestfjörðum og Austfjörðum. Samfylkingin styður fiskeldi í sjó en gerir þá kröfu að greinin standist kröfu um sjálfbæra nýtingu með áherslu á traust eftirlit, vöktun og rannsóknir.
Við leggjum leggjum áherslu á að fiskeldisgjaldinu sé skipt með nærsamfélagi.
Vilja virkja á Vestfjörðum
Samfylkingin gerir kröfur um framfarir í orkumálum til að styðja við verðmætasköpun og orkuskipti. Flýta þarf orkuframkvæmdum sem hafa verið samþykktar í nýtingarflokk rammaáætlunar. Þar eru nokkrar virkjanir á Vestfjörðum t.a.m. Hvalá, Austurgil, Skúfnavötn svo eitthvað sé nefnt. Kvíslártunguvirkjun í Steingrímsfriði er einnig komin langt í undirbúningi. Það þarf að koma þessum verkefnum áfram.
Svo er afar brýnt að byggja upp dreifikerfið.“