Rannsóknarnefnd  vegna snjóflóðsins í Súðavík 16. janúar 1995

Hægra megin borðsins er nýskipuð rannsóknarnefnd um snjóflóðið í Súðavík: Dóra Hjálmarsdóttir rafmagnsverkfræðingur, Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur og Finnur Þór Vilhjálmsson héraðsdómari, sem jafnframt er formaður nefndarinnar. Gegnt þeim, vinstra megin borðs, sitja þau Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, og Ragna Árnadóttir, skrifstofustjóri Alþingis.

Forseti Alþingis átti í dag fund með rannsóknarnefnd um snjóflóðið í Súðavík, þar sem nefndarmönnum voru afhent skipunarbréf. Í nefndina hafa verið skipuð Finnur Þór Vilhjálmsson héraðsdómari, sem er jafnframt formaður nefndarinnar, Dóra Hjálmarsdóttir rafmagnsverkfræðingur, og Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur.

Með samþykkt Alþingis var ákveðið að skipa nefnd þriggja einstaklinga til að rannsaka málsatvik í tengslum við snjóflóð sem féll í Súðavík 16. janúar 1995.

Samkvæmt þingsályktuninni skal nefndin draga saman og útbúa til birtingar upplýsingar um málsatvik í því augnamiði að varpa ljósi á ákvarðanir og verklag stjórnvalda þar sem gerð verði grein fyrir:

  1. hvernig staðið var að ákvörðunum um snjóflóðavarnir, hvernig skipulagi byggðar var háttað með tilliti til snjóflóðahættu, gerð hættumats og hvernig staðið var að upplýsingagjöf um snjóflóðahættu til íbúa Súðavíkur,
  2. fyrirkomulagi og framkvæmd almannavarnaaðgerða í aðdraganda snjóflóðsins, í kjölfar þess og þar til hættuástandi var aflétt,
  3. eftirfylgni stjórnvalda í kjölfar snjóflóðsins.

Rannsóknarnefndin tekur til starfa 1. janúar 2025 og skal ljúka rannsókn sinni svo fljótt sem verða má og eigi síðar en einu ári eftir skipun hennar.

DEILA