Hrognkelsi virðast synda lengri vegalengdir en áður hefur verið talið. Þetta er niðurstaða vísindamanna sem hafa fundið tvö hrognkelsi sem merkt voru austur af Íslandi og syntu 1.510 kílómetra og 1.612 kílómetra til Danmerkur til að hrygna.
Þetta kemur fram í vísndagrein sem nýverið var birt í vísindatímaritinu Journal of Fish Biology og sagt er frá á vef Hafrannsóknastofnunar.
Rannsóknin spannar sex ára tímabil og voru á tímabilinu merkt 2.750 hrognkelsi í Irmingerhafi og í Noregshafi.
Voru 17 fiskar endurheimtir og veiddust fjórir þeirra meira en þúsund kílómetra frá því svæði sem þeir voru merktir. Þetta er talið sýna að hrognkelsi synda langar vegalengdir milli fæðuslóðar á úthafi að sumarlagi og hrygningarstöðva við ströndina að vori.