Mikil áfengisdrykkja veldur áhyggjum

Fullorðnir Evrópubúar drekka að meðaltali 9,2 lítra af hreinu áfengi árlega sem er met á heimsvísu, samkvæmt nýlegri skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO).

Stofnunin hvetur Evrópuþjóðir til að herða tafarlaust aðgerðir sínar til að sporna við áfengisneyslu. 

Samkvæmt skýrslunni má rekja tæplega 800.000 dauðsföll í Evrópu ár hvert til áfengisneyslu sem eru um 9% allra dauðsfalla í álfunni. Um 90% dauðsfalla í Evrópu má rekja til langvinnra sjúkdóma , s.s. hjarta- og æðasjúkdóma, krabbameina, sykursýki og langvinnra öndunarfærasjúkdóma. Áfengisneysla er áhættuþáttur margra langvinnra sjúkdóma og eru um 600.000 dauðsföll ár hvert af völdum þeirra rakin til áfengisneyslu.

Samkvæmt nýjustu samanburðarhæfum gögnum WHO um áfengisneyslu Evrópubúa (2019) neyttu karlar fjórfalt meira áfengis en konur, eða um 14,9 lítrum af hreinu áfengi á ári (kk) á móti 4 lítrum (kvk). Einn af hverjum tíu fullorðnum er talinn vera með áfengisvandamál og nærri einn af hverjum tuttugu með áfengisfíkn.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin mælir með hækkun áfengisgjalda, víðtækum takmörkunum á markaðssetningu áfengis og að draga úr aðgengi fólks að því.

DEILA