Framsókn: 20% hagvöxtur á 3 árum

Frambjóðendur Framsóknarflokksins á fundinum á Ísafirði.

Frambjóðendur Framsóknarflokksins héldu opinn fund á Ísafirði á laugardaginn í Edinborgarhúsinu.

Stefán Vagn Steánsson, efsti maður listans og 1. þingmaður Norðvesturkjördæmis fór yfir árangur ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálunum sem hann sagði góðan þrátt fyrir óvenjulega mikla erfiðleika með Codid faraldrinum, Úrkraínustríðinu og jarðeldunum á Reykjanesskaganum.

Stefán Vagn sagði það hefði verið 20% hagvöxtur á þremur árum á Íslandi. Sem væri gríðarlega mikið í ljósi þess að víða erlendis væri 1 -2,5% hagvöxtur á ári talið vel ásættanlegt. Á næsta ári væri einmitt búist við 2,5% hagvexti hér á landi sem þýddi að heldur væri að draga úr þenslunni sem verið hefði og hefði leitt af sér mikla íbúafjölgun og þar af leiðandi skort á íbúðarhúsnæði.

Ríkið hefði sett um 350 milljarða króna út í hagkerfið í Covidfaraldrinum til þess að halda upp þúsundum starfa og viðhalda eftirspurninni. Kostnaður ríkisins vegna Grindavíkur væri um 100 milljarðar króna. Þetta væru gríðarleg útgjöld, en ekki hefði verið ágreiningur um það að ráðast í þau, frekar að borið hefði á gagnrýni á þann veg að gera hefði átt meira.

Nú væri staðan sú að verðbólga væri á hraðri niðurleið, síðasta mæling hefði verið 4,6% og spáð væri að verðbólgan yrði komin niður í 3,6% í febrúar 2025. Samþykkt hefðu verið fjárlög sem Seðlabankinn mæti sem svo að sýndu nægilegt aðhald í efnahagsmálum.

Auk Stefáns Vagns Stefánssonar voru Halla Signý Kristjánsdóttir, alþm og Ragnar Sæmundsson, Akranesi á fundinum en þau skipa 3. og 4. sæti framboðslistans.

Fundargestir spurðu um samgöngumál, einkum vegaframkvæmdir og veggjöld, húsnæðismál og lánakerfi til íbúðakaupa, innviðagjald á farþega skemmtiferðaskipa og laxeldi.

Það kom skýrt fram hjá frambjóðendunum að þeir styddu ekki hugmyndir um bann við laxeldi. Stefán Vagn það ekki vera hægt. Framtíðarsýn væri að sveitarfélögin fengju meira í sinn hlut af greiðslum eldisins til hins opinbera.

Halla Signý Kristjánsdóttir minnti á að árið 2016 hafi verið öðruvísi umhvorfs á Vestfjörðum en nú er. Þá hafi ekki verið talað um uppbyggingu og vor á Vestfjörðum. Síðan hefur verið mikil uppbygging á Vestfjörðum í atvinnulífinu, einkum tengdu laxeldinu, fólki hafi fjölgað og íbúðabyggingar væri hafnar að nýju. Framsókn væri flokkur sem léti verkin tala.

Fundargestir voru bæði ungir og aldnir.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

DEILA