Roðagyllum heiminn

Meðfylgjandi er mynd af stjórn nýstofnaðs Soroptimistaklúbbs Vestfjarða Hana skipa (talið frá vinstri) Helga Rebekka Stígsdóttir, aðstoðar verkefnastjóri Auður Helga Ólafsdóttir, varaformaður Bára Lind Hafsteinsdóttir, verkefnastjóri Jónína Eyja Þórðardóttir, ritari Harpa Guðmundsdóttir, formaður Magnea Ingibjörg Hafsteinsdóttir, gjaldkeri

Í dag hefst átakið „Roðagyllum heimin“  og í fyrsta skipti verða byggingar á Vestfjörðum lýstar upp með roðgylltum (appelsínugulum) lit. Soroptimistar um allan heim taka þátt í þessu verkefni þar sem við notum appelsínugulan lit til að verkja athygli á kynbundnu ofbeldi með það fyrir augum að rjúfa þögnina og útrýma ofbeldi. Átakið stendur frá 25. nóvember  sem er dagur Sameinuðu þjóðanna til 10. desember sem er mannréttindadagur Sameinuðu þjóðanna og Soroptimistadagurinn.

Áherslur átaksins í ár eru á stafrænt ofbeldi, að koma auga á það og draga úr þeim skaða sem slíkt ofbeldi getur valdið. Slagorðið „Þekktu rauðu ljósin –  Soroptimistar hafna ofbeldi“ hefur fylgt þessu átaki og er það í tengslum við enska slagorðið „Read the Signs“ sem er notað af Evrópusambandi Soropitmista. Rauðu ljósin eru sex talsins: Andlegt ofbeldi, líkamlegt ofbeldi, kynferðislegt ofbeldi, fjárhagslegt ofbeldi, stafrænt ofbeldi og eltihrellir.

Hvað eru Soroptimistar?

Soroptimistar eru alþjóðleg samtök kvenna sem stuðla að bættri stöðu kvenna og stúlkna um allan heim jafnt í nærumhverfi sem og á alþjóðavettvangi. Á Íslandi eru um 650 konur í 20 klúbbum starfandi en fyrsti klúbburinn var stofnaður 19. september 1959. Í  gær 24. nóvember var Soroptimistaklúbbur Vestfjarða stofnaður. Þetta er fyrsti klúbburinn á Vestfjörðum og sá tuttugasti á landinu. Klúbburinn er jafnfram fyrsti rafræni klúbburinn á Íslandi en slíkir klúbbar funda á netinu og því skiptir búseta klúbbfélaga ekki máli. Það er okkur stofnendum mikil ánægja að þessi klúbbur sé orðin að veruleika og ekki síst á þessum árstíma þar sem átakið roðagyllum heiminn er að byrja.

Í starfi Soroptimista um allan heim er unnið með sömu markmið sem eru að stuðla að menntun kvenna og stúlkna, valdefla konur til atvinnuþátttöku, berjast gegn kynbundu ofbeldi, tryggja fæðuöryggi og heilbrigðisþjónustu kvenna og stúlkna og ekki síst að leggja rækt við umhverfismál og stuðla að sjálfbærni. Verkefni klúbbanna eru bæði stór og smá og mismunandi eftir þörfum svæðanna sem þeir starfa á.

Í þessum nýja klúbbi eru 23 stofnfélagar sem búa víðsvegar um Vestfirði og á höfuðborgarsvæðinu sem taka fagnandi á móti fleiri konum sem hafa áhuga á að vinna með okkur að þessum markmiðum. Hægt að er að nálgast fleiri upplýsingar um Soroptimista á https://soroptimist.is/ og sækja um hér https://www.systur.is/

Harpa Guðmundsdóttir

Formaður Soroptimistaklúbbs Vestfjarða

DEILA