Þeir þrír flokkar sem hafa bætt mest við sig fylgi síðustu mánuði eiga það sameiginlegt að hafa staðið utan þeirrar ríkisstjórnar sem nú er að fara frá. Um pólitík þeirra flokka sem staðið hafa bakvið þá stjórn er hægt að segja ýmislegt, en það sem ég held að kjósendum gremjist mest núna sé að hún náði ekki samstöðu um mörg lykilmál. Það var allt stopp. Á þingmálaskrá hinnar föllnu ríkisstjórnar voru 21 mál sem átti að endurflytja, þar sem afgreiðsla þeirra hafði ekki tekist á fyrri þingum. Þá er ekki talið lagareldisfrumvarpið sem matvælaráðherra heyktist á að leggja fram.
Ég er sannarlega ekki á þeirri skoðun að fjöldi samþykktra laga sé heppilegur mælikvarði á gæði þingmeirihluta. Síður en svo. En þegar fjöldi mála bíður og safnar ryki er eitthvað að. Fjöldi mála sem þokkaleg samstaða er um og mikilvægt er að nái brautargengi sitja ósamþykkt, föst í deilum um atriði sem hægt væri að útkljá með alvöru pólitík. Pólitík uppbyggingar, málamiðlana, sanngirni og raunsæis.
María Rut kann að leysa hnúta
Flateyringurinn María Rut Kristinsdóttir, oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi, hefur lagt áherslu á samvinnu í sínum málflutningi. Mér líkar þessi tónn og kjósendum líka. María hefur margra ára reynslu af stjórnmálastarfi á ýmsum vettvangi, er föst fyrir en kann list þess mögulega.
Viðreisn er með þrjú áhersluatriði: baráttuna við vexti og verðbólgu, geðheilbrigðismál ungs fólks og frelsi. Í öllum þrennu er hægt að láta hendur standa fram úr ermum, miðla málum um leiðir en ná markmiðunum.
Gylfi Ólafsson í 4. sæti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi