Nýr þjálfari til Harðar

Óskar Jón Guðmundsson hefur gert þriggja ára samning við Handknattleiksdeild Harðar um að verða þjálfari og framkvæmdastjóri deildarinnar. Hann tekur við góðu búi af Grétari Eiríkssyni sem hefur haldið til náms í Danmörku. Óskar er Þróttari að uppruna og þjálfaði þar í tólf ár við góðan orðstír og mikla ánægju Þróttara. Tvö síðustu árin þar þjálfaði hann meistaraflokk karla en undanfarin tvö tímabil hefur hann þjálfað meistaraflokk og 2. fl. karla í Svíþjóð hjá Spanga Handboll. Óskar var eins og áður segir þjálfari hjá Þrótti 2002 til 2009, var þá eitt tímabil hjá Gróttu og því næst aftur hjá Þrótti í 5 ár áður en hann fór til Svíþjóðar. Óskar hefur lokið HSÍ 3A námskeiði ásamt fjölda annarra íþróttanámskeiða og er hokinn af reynslu.

Handknattleiksdeild Harðar ber miklar væntingar til Óskars og vonast til þess að hann muni aðstoða félagið við að taka næstu skref. Áætlað er að félagið sendi sjö flokka til keppni í Íslandsmóti vetrarins og mun að vanda halda sitt árlega stóra Íslandsmót í 5. fl. karla yngri í apríl 2018. Óskar hefur störf þann 1. október en þangað til munu afleysingamenn hlaupa í skarðið.

smari@bb.is

DEILA