Í nýrri könnun Maskínu sem birt var í gær mælist Sjálfstæðisflokkurinn með mest fylgi í Norðvesturkjördæmi, tæplega 20 prósent og fengi hann tvo menn kjörna. Viðreisn er komin upp í annað sætið með 18,1% fylgi. Miðflokkurinn og Samfylkingin eru nánast með sama fylgi 16,2% og 16,1%. Þá kemur Framsóknarflokkurinn með 10,5% fylgi. Þessi fjórir flokkar fengju allir einn þingmann kjörinn. Á hæla þeirra kemur Flokkur fólksins 8,9% og er skammt frá því að ná kjördæmaþingsæti.
Píratar, Sósíalistaflokkurinn, Vinstri grænir og Lýðræðisflokkurinn eru allir nokkuð frá því að ná kjördæmaþingsæti.
Könnun Maskínu er verulega frábrugðin mælingu í könnun Prósents í síðustu viku. Þar var Samfylkingin langstært með 25% og Sjálfstæðisflokkurinn næstur með 15%. Þriðja könnunin sem birt vaar er könnun Gallup í síðustu viku. Reyndar hefur RUV ekki birt fylgi einstakra flokka í Norðvesturkjördæmi en þá greint frá tölum við nokkra flokkanna og er það tilgreint nánar í töflunni að neðan. Þar er safnað saman tiltækum upplýsingum um fylgi við flokka í Norðvesturkjördæmi.
Minnt er á þann fyrirvara sem á við allar kannanirnar að svörin eru fá og því víð vikmörk sem má sjá við töluverðum sveiflum í fylgi einstakra flokka. Það þýðir að ekki er endilega víst að sveiflurnar skýrist af auknu eða minnkandi fylgi heldur sé mæliskekkja.