Til hvers var þá barist?

Mannlíf á Vestfjörðum hefur tekið stakkaskiptum á undanförnum árum. Þær breytingar byggja á þeim sóknarfærum sem skapast hafa með styrkari stoðum atvinnulífs í fjórðungnum. 

Unga fólkið kemur aftur

Mikil uppbygging atvinnulífs hefur skapað fjölbreyttari atvinnutækifæri sem hefur gert Vestfirði aftur að eftirsóknarverðum búsetukosti. Nú sjáum við unga fólkið flytja aftur heim. Tekjur sveitarfélaga auksit með hærra tekjustigi og hækkandi húsnæðisverði. Þau  hafa fylgt þessari uppbyggingu eftir. Leikskólapláss eru til staðar þegar þeirra er þörf og sem fyrr eru vegalengdir stuttar og því meiri tími fyrir samveru með fjölskyldunni. Það er eftirsóknarvert.

Það er gömul saga og ný að þegar gengur vel í atvinnulífi skilar það sér fljótt i mannlífið. Menningin, nýsköpunin og síðast en ekki síst íþróttastarf nýtur þess og við sjáum blómstrandi dæmi um slíkt víða.

Tækifærin eru svo sannarlega mörg á Vestfjörðum.

Ekki sofna á verðinum

En, við megum ekki sofna á verðinum.

Þrátt fyrir stórstígar framfarir í samgöngumálum á undanförnum árum verður sú uppbygging að halda áfram. Við verðum að koma í veg fyrir að saga Hornafjarðarfljóts undir forystu þáverandi innviðaráðherra og síðar fjármálaráðherra endurtaki sig. Að eitt illa skipulagt verkefni valdi stöðvun nauðsynlegra framkvæmda er óásættanlegt.

Áfram veginn

Meirihluti fjárlaganefndar undir forystu sjálfstæðismanna hefur nú tryggt að áfram verði haldið á næsta ári með framkvæmdir á Dynjandisheiði og í Reykhólasveit.  Einungis með því að ljúka þeim framkvæmdum tryggjum við heilsárs tengingu milli norður- og suðursvæðis Vestfjarða. Um leið þarf að tryggja að íbúar og atvinnulíf a Vestfjörðum  séu ekki eftirbátar annarra landsmanna þegar kemur að vetrarþjónustu á vegum.

Við þurfum einnig að komast í þá þjónustu sem við þörfnumst hverju sinni.  Til þess þurfum við greiða vegi og ekki síst að Reykjavíkurflugvöllur sé til staðar og nothæfur á neyðarstundum. Því er barátta meirihlutaflokkanna í Reykjavík gegn Reykjavíkurflugvelli með öllu óskiljanleg.

Sjálfbærni án olíubrennslu

Þá er það forgangsatriði að Vestfirðir verði sjálfbærir í orkumálum með öðrum kosti en olíubrennslu. Slíkir orkukostir eru og hafa verið til staðar á Vestfjörðum en þar höfum við rekist á við ótrúlega pólitíska þröskulda.

Hin mikla uppbygging atvinnulífs, sem átt hefur sér stað á undanförnum árum hér vestra, kom ekki af sjálfu sér. Hún er afrakstur áralangrar baráttu ekki síst í uppbyggingu fiskeldis. Þar voru í vegi margir þröskuldarnir. 

Forðumst þröskuldana

Í komandi Alþingiskosningum þurfa kjósendur á Vestfjörðum að rifja upp hvar helstu þröskuldar uppbyggingar á undaförnum árum lágu.

Til hvers var þá barist ef flokkar þeir sem drógu lappirnar og beinlínis vinna gegn hagsmunum Vestfirðinga líkt og í flugvallarmálinu fái stuðning héðan?

Dagný Finnbjörnsdóttir

Höfundur skipar 4. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi

DEILA