Seiðasleppingin ekki kærð

Tálknafjörður.

Slepping 160 þúsund seiða af norskum uppruna í Tálknafjörð árið 2002 verður ekki kærð til lögreglu þar sem málið er fyrnt. Soffía Karen Magnúsdóttir, fagsviðsstjóri fiskeldis hjá Matvælastofnun, segir í samtali við fréttastofu RÚV, að Fiskistofa og Matvælastofnun vinni að því að afla frekari upplýsinga um málsatvik. Níels Ársælsson, útgerðarmaður frá Tálknafirði, hefur greint frá því að hafa sleppt seiðunum í sjóinn. Félag Níelsar, Eyrarfiskeldi hf. keypti 160 þúsund laxaseiði af norskum stofni og komu þau til eldishúss félagsins við Gileyri í nóvember árið 2001.

Áætlað var að laxaseiðið myndi gefa um 600 til 700 tonn sem áttu að koma slátrunar í desember 2003, en þegar norskur samstarfsaðili fyrirtækisins varð gjaldþrota varð ekki úr þeim áætlunum. Þraut fjármagn Eyrarfiskeldis um mitt ár 2002, og ákvað Níels þá að hleypa seiðunum í sjó í gegnum botnlokur eftir að þau höfðu verið í svelti í þrjá mánuði.

Erfitt er segja til um áhrif sleppingarinnar að sögn Soffíu Karenar, enda óvíst hvaða ástandi fiskurinn var í þegar honum var hleypt út úr stöðinni og hvernig honum hefur reitt af. Í frétt RÚV kemur fram að þegar ítarlegri upplýsingar liggi fyrir verði frekar hægt að leggja mat á stöðuna. Ekki er raunhæft að grípa til sérstakra aðgerða, þar sem málið er gamalt. Soffía Karen tekur fram að regluverkið í kringum fiskeldi hafi tekið gríðarlegum breytingum síðan 2002 og kröfur til rekstraraðila aukist til muna.

smari@bb.is

 

DEILA